Gamla Stan

Ég hef komist að því að ég er agalega góð í að finna mér alltaf eitthvað að gera, verandi svona alein í stórborg.

Sennilega hefur það eitthvað með það að gera, að ég er alltaf búin að plana fyrirfram hvað ég ætla að gera næsta dag. Frekar leiðinlegt, myndi einhver segja, en þetta fyrirkomulag virkar vel fyrir mig. Heiðar segir að ég sé fyrirsjáanleg manneskja ... á jákvæðan hátt!

Í gær var ég til dæmis búin að plana að skila af mér verkefni til prófessorsins míns á Íslandi. Og ég gerði það. Það tók að vísu alls tíu klukkutíma að klára það, en ég mér skilst að ég sé víst líka með netta fullkomnunaráráttu ásamt því að vera fyrirsjáanleg!

Í dag fór ég aftur á móti með henni Lindu, sem er deildarkennarinn minn á KI Huddinge, oní bæ. Þar sem ég ætlaði ALLS EKKI að vera of sein (við höfðum planað að hittast klukkan 11), var ég mætt á staðinn klukkan 10 mín í 11. Linda kom á mínútunni 11 og afsakaði sig þvílíkt fyrir að vera of sein! Þið munið að það er sko dónaskapur að vera óstundvís í Svíþjóð!

Við vorum búnar að ákveða að fara á söfn en þar sem það er mánudagur voru öll söfnin lokuð. Í staðinn gengum við um Gamla Stan, sem er eins og nafnið gefur til kynna, gamli bærinn í Stokkhólmi. Það var mjög gaman að ganga þarna um með henni og fá svona prívat guided tour um svæðið.

Maður finnur einhvern veginn gífurlega mikið fyrir fortíðinni þegar maður er í Gamla Stan. Það er nóg að loka til dæmis augunum þegar staðið er á steinlögðum götunum á Stortorget: þá er hægt að ímynda sér að árið sé 1664, hestarnir tölta um svæðið, "gobbledí, gobbledí, gobbledí, gobb", hávaðinn í fólkinu, það finnst matarlykt sem blandast skítalykt og lyktinni af sóti.

Þar eru líka fullt af verslunum sem selja minjagripi, antíkbúðir, postulínsbúðir, frímerkjabúðir, tóbaksbúðir, leikfangabúðir sem selja gömul leikföng og svo ein og ein sem selur nútímaflíkur, og manni finnst þær búðir einhvern veginn ekki passa inn í leikmyndina.

Svo er líka heill hellingur af veitingahúsum og kaffihúsum þarna, líka hótel og gistiheimili.

Linda sýndi mér þrengsta sundið í Gamla Stan; það er frekar langt, með tröppum og tvær manneskjur geta ekki gengið þar hlið við hlið. Einnig fórum við í Storkyrkan sem er kirkja sem var byggð í kringum 1400. Þið sem hafið áhuga á skandinavísku kóngafólki skuluð muna eftir þessari kirkju því þetta er einmitt kirkjan sem ungfrú Viktoría mun gifta sig í! Þetta er alveg einstaklega falleg kirkja, risastór og með gífurlega merkilega sögu.

Svo fékk ég líka guided tour um sænska hönnun og fórum við inn í allar búðir sem við rákumst á sem seldu einhvers konar hönnun eftir Svía: föt, skart, dótarí, eldhúsáhöld, úr og fleira. Nú þekki ég til dæmis "10-gruppen", sem eru 10 hönnuðir frá sjötta áratugnum sem hönnuðu vörur og mynstur dáldið svipað og hið finnska Marimekko.

Einnig fórum við á slóðir Mikael Blomkvist og Lisbeth Salander úr Man som hatar kvinnor í Slussen og Södermalm, sem var líka mjög gaman.

Ég keypti mér alveg agalega fallega skó sem ég er voða lukkuleg með í svona FairTrade búð í Gamla Stan á rúmlega þúsundkall íslenskar og áður en við Linda kvöddumst borðuðum við saman tælenska kjúklingasúpu á einhverjum af þessum fínu veitingastöðum í Gamla Stan.

Í dag var líka fyrsti tíminn á sænskunámskeiðinu. Og hann var alveg eins og fyrsti tíminn í dönsku fyrir...við skulum sjá...25 árum (er ég orðin svona gömul!?).  "Jag heter Adda och jag kommer fran Island", "Jag talar liten svenska". Þið skiljið.

En það var mjög gaman samt og mun bara hjálpa mér að gera mig skiljanlegri á sænsku.

En á morgun er nýr planaður dagur sem ég ætla mér að njóta og vona að Guð gefi ykkur öllum góðan dag á morgun sem og aðra daga.

Ykkar,

Adda

 


Michael Nyquist og CiRCUS

Kæru vinir!

Takk fyrir allar góðu kveðjurnar. Þær ylja svo sannarlega hjartaræturnar!

Ég hugsa að úr því það eina sem Heiðar minn setur sem skilyrði fyrir að búa í Svíþjóð sé að sænskir Trúboðar geti orðið að veruleika, og þá er best að fara að leita að villu í nágrenni Stokkhólms!  

Dagurinn í dag var sá hlýjasti í Stokkhólmi síðan ég kom. Svo hlýr að ég hljóp um strendur Solna á stuttermabol í morgun og hlustaði á SigurRós. Dásamlegt.

Ég skellti mér svo á listasýningu hjá vini hans Heiðars í ID:I gallerí sem er staðsett í Södermalm. Listamaðurinn heitir Hreinn J. Stephensen og sýningin hans kallast CiRCUS. Hann er með mjög skemmtileg verk, notar allskyns efni og aðferðir: vatn, lasergeisla, ljós, vax, mdf, þrykk og fleira. Kíkið endilega á heimasíðuna hans www.hreinn.se. Það var agalega gaman að hitta hann og vin hans sem heitir Árni og er sonur Sigurðar Guðmundssonar myndlistarmanns. Sá hefur búið lengi hér og talar litla sem enga íslensku. Árni þessi rekur galleríið ásamt fleirum. 

Eftir listasýninguna var svo komið að því að fara í bíó.

Ég segi bara þetta: ef þið ætlið að sjá eina bíómynd á þessu ári þá skuluð þið sjá Man som hatar kvinnor. Þessi mynd er algjör snilld. Þokkalega hrottaleg samt, og ekki bönnuð innan 15 ára að ástæðulausu. Hún er sirka 2 og 1/2 klst að lengd, en ekki langdregin í eina mínútu. Ég er líka ótrúlega ánægð með að Svíar eru ekkert vesenast með að hafa hlé í bíó. Svo eru Svíar greinilega afar ánægðir með myndina "sína" og klöppuðu þegar myndin var búin! 

Aðalleikari myndarinnar, Michael Nyquist lék líka í annarri frábærri mynd sem heitir Så som i himmelen. Sem er líka must-see.

Nú er svo komið að því að læra.

Verið hlý við hvert annað!

Ykkar,

Adda


Betlehemskyrkan

Kæru vinir!

Þeir segja að vorið sé komið í Stokkhólmi, í það minnsta var ljómandi vor í lofti í dag.

Ég fór að borga húsaleiguna í dag. Skrifstofan sem sér um þau mál er staðsett í Karolinska Institutet Campus Solna, sem er frekar stutt frá mér, allavega það stutt að enginn lest eða bus fer beint héðan og þangað. En það tók mig eina og hálfa klst að fara þessa leið, fram og tilbaka.

KI Solna er svipað og KI Huddinge; spítali, allskonar rannsóknarstofur, háskóli, íbúðir og margt fleira. Það var dáldið gaman að koma þarna því þetta svæði gæti rétt eins verið lítið þorp á Íslandi. Eini munurinn er að í KI Solna snýst allt um spítalann, en ef þorpið væri á Íslandi snérist allt um fiskinn sem væri dreginn að landi.

Þetta var hinn mikli útréttingadagur því í dag fór ég líka að kaupa sænsku skólabókina sem ég þarf að nota á sænskunámskeiðinu sem byrjar á mánudaginn. Eins og ég minntist á í síðustu færslu eru Svíar afar regluföst þjóð. Að kaupa þessa skólabók er gott dæmi um það:

  -  þessi bók er aðeins til í einni bókabúð í Stokkhólmi.

  -  þessi bókabúð er pínku-ponku lítil og þar eru aðeins seldar kennslubækur í sænsku ásamt orðabókum og fleiru sem nauðsynlegt er til að læra sænsku.

  -  ég þurfti að skipta einu sinni um lest til að komast í bókabúðina og ganga í hálftíma þar til að ég kom að bókabúðinni.

  -  eins og venjulega fékk ég alveg dásamlega þjónustu.

Þannig að nú er ég komin með Svenska utifran og líður eins og þegar ég var að byrja að læra dönsku í 5.bekk. 

Annars var ég að koma heim eftir að hafa skellt mér á agalega skemmtilega gospeltónleika í Betlehemskyrkan. Þar sungu tveir gospelkórar: Gospel Nation með örugglega frænku hennar Carolu sem kórstjórnanda, og svo Slim´s Gospeltrain með hann Slim sem kórstjóra, sem er gamall, ógurlega mjór og langur.

Þau sungu svona jazz-skotið gospel sem var mjög skemmtilegt og ég hef aldrei heyrt Swing low, sweet chariot sungið eins vel.

Ég gæti sem best trúað að við Heiðar séum bæði dáldið sænskættuð:

Svíar tala frekar mikið ( = Heiðar),

og hlusta á meðan aðrir tala ( = ég).

Eftir að hafa kannað aðeins markaðinn hérna hef ég komist að því að við gætum fengið villu ( = einbýlishús) fyrir raðhúsið okkar góða á Laugalæknum...

Svo má náttúrlega ekki gleyma því að það fóru pakkar í póst í dag!

Hafið það sem dásamlegast!

Ykkar,

Adda

 


Sergels torg

Ég er skelfilega vana-og regluföst kona og hef tekið eftir því að Svíar eru líka reglu-þjóð. Þeir leggja meiri áherslu á óskráðar reglur en skráðar; atriði og/eða hegðun sem er sjálfsagt að sýna og framfylgja.

Á KI-Huddinge er ekki farið á netið í einkaerindum í vinnunni (á LSH þurfti að loka fyrir aðgang að ákveðnum síðum á netinu ... maður spyr sig).

Á deildinni sem ég er á er séð til þess að allir komist í mat í nákvæmlega 30 mín.

Svíar hlusta á meðan aðrir tala.

Afgreiðslufólk í verslun og þjónustu sýnir viðskiptavinum undantekningarlaust kurteisi og virðingu; að minnsta kosti hef ég ekki orðið vör við annað þar sem ég hef rekið inn nefið.

Hér er ekki troðist framfyrir í biðröð eða í rulltrapperne á lestarstöðvunum.

Það er dónaskapur hér að vera óstundvís. Ef ég á að mæta klukkan sjö að morgni í vinnuna, þá er ég tilbúin í rapport í síðasta lagi klukkan sjö, helst rétt fyrir.

Þar sem ég þarf að skipta frá ofanjarðarlest í Metróinn á T-Centralen (sem má segja að sé Paddington Station Stokkhólms), er alveg tilvalið að kíkja aðeins á Sergels torg á milli lesta. Þar eru sirka óteljandi verslanir, veitingahús, söfn, kaffihús, fjölbreytt mannlíf og agalega gaman fyrir íslenska námsmenn að rölta um og drekka í sig borgarmenninguna.

Í dag notaði ég einmitt tækifærið og rölti þar um. Keypti mér líka miða í bíó á langvinsælustu myndina í sænskum kvikmyndahúsum: Mannen som hatar kvinnor, sem er gerð eftir skáldsögu Stig Larson. Við erum að tala um að ég keypti miða sem gildir á laugardaginn, en það er sem sé alltaf uppselt.

Svo keypti ég líka eitt og annað handa elskunum mínum heima. Þannig að þau fá pakka í næstu viku! Það var líka alveg FRÁBÆRT að heyra í ykkur í kvöld, ljósin mín!

Annars fer ég ekki á vakt á KI fyrr en eftir helgi, þannig að ég hef ýmislegt planað um helgina. Læra auðvitað, og svo ýmislegt fleira sem kemur í ljós!

Ykkar,

Adda


Karlbergsslott

Jæja, gott fólk!

Dagurinn í dag hófst kl.05:10 á mínu litla heimili, og ég var komin á lestarstöðina rétt fyrir sex. Þegar ég geng hálfsofandi í Laugar rétt fyrir sex í Reykjavík er öll borgin enn í fastasvefni. En það er svo sannarlega ekki þannig hér. Á lestarstöðinni iðaði allt af lífi og...það var búið að opna ExpressoHouse þannig að ég fékk minn latté kl.06:05! Hvað getur maður beðið um meira?

Mér líkar betur og betur við mig á spítalanum, og get orðið skilið næstum allt sem sagt er á sænsku. Þó ég nái kannski ekki alveg öllu frá orði til orðs, þá skil ég algjörlega innihaldið. Í dag hitti ég mjög skemmtilegan danskan lækni sem var mjög áhugasamur um hvernig lífið væri á Íslandi í dag. Hann var í Reykjavík sl. sumar á ráðstefnu, og bar íslenskum læknum góða sögu. Eftir nokkuð langt spjall við þennan ágæta lækni yfir morgunkaffinu um kaup Íslendinga á Magasin, Illum, bönkum, einkaflugvélum, íslensku krónunni sem er í lægstu lægðum, gífurlega háu fasteignaverði á Íslandi, veðráttunni á Íslandi, ástæðunni fyrir því að Íslendingar í útlöndum eru oftar en ekki alltaf á leiðinni aftur heim og hvort Íslendingar munu ná að komast út úr þessum hremmingum: var það tónlistarhúsið sem Daninn hafði mestar áhyggjur af! "Jo, men: musik! Det er musik som skal hjælpe Island at komme tilbage!" Það er kannski bara rétt hjá honum!? Menningin mun örugglega þjappa okkur þéttar saman, það er ég viss um.

Eftir að vinnudeginum lauk skellti ég mér út að hlaupa, og fór alveg einstaklega fallega leið niður að ströndinni hér í Solna. Endaði svo á að hlaupa framhjá Karlbergsslott sem er einn elsti herskóli heims. Alveg frábært að hlaupa hérna í þessu fallega umhverfi - það spretta í það minnsta engir kastalar eða herskólar eða strendur eða skógar upp þegar ég hleyp á brettinu í Laugum!

Ég var að ljúka við að lesa bókina Lesarann eftir Bernard Schlink, sem er mjög svo áhugaverð og ég mæli svo sannarlega með henni fyrir alla sem hafa áhuga á góðum bókmenntum (þessi setning var í boði Forlagsins). Á bls. 153 er setning sem ég ætla að leyfa ykkur að njóta með mér:

"Þar eð sannleikurinn í því sem við segjum er fólginn í því sem við gerum er vel hægt að komast af án þess að tala".

Þar til næst,

ykkar, Adda


Og þar kom að því.

Þar sem ég er stödd í Svíþjóð hef ég ákveðið að skrifa nokkur blogg til að deila með ykkur hugrenningum mínum.

Herbergið mitt er mjög fínt, snyrtilegt og með sér wc og sturtu. Það er reyndar ekki jafnsnyrtilegt í sameiginlega eldhúsinu, þannig að ég nota það bara ekkert. Svo er kjörbúð (coop) hérna rétt hjá, og lestarstöðin (Vastra Skogen) er líka rétt hjá þannig að staðsetningin er sérdeilis fín.

Fyrsti dagurinn í verknámi á Karolinska Huddinge var í dag, og gekk mjög vel! Ég er að vinna á Gynokologi; deild þar sem konur koma í legnám, fóstureyðingu, ef það verður fósturlát, ef konur eru með krabbamein o.þ.h. Þetta er kannski ekki auðveldasti sjúklingahópurinn, en því meira sem ég mun læra.

KI sendir mig á sænskunámskeið sem ég byrja á í næstu viku, sem er bara frábært!

Það tekur mig tæplega klst að komast í vinnuna: fyrst með metroinum og svo með "pendeltag" eða ofanjarðarhraðlest. Þannig að þegar ég er á morgunvakt þarf ég að leggja af stað að heiman kl. 05:50, því vaktin byrjar klukkan sjö! Takk fyrir pent! Það verður nú samt örugglega ekkert mál.

Ég er líka búin að finna mitt "Kaffitár" í Stokkhólmi sem er staðsett á centralstation þannig að ég fæ mitt latté!

HM er líka hér á sínum stað, og þar sem ég er Íslendingur var ég ekki lengi að þefa það uppi! Á laugardaginn keypti ég mér einmitt hlýja peysu þar á útsölu (greinilega Íslendingur í útlöndum árið 2009 - það hefðu nú ekki verið neinar útsöluvörur 2007!)

Þannig að þetta fer vel af stað.

Ykkar,

Adda.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband