Sergels torg

Ég er skelfilega vana-og regluföst kona og hef tekið eftir því að Svíar eru líka reglu-þjóð. Þeir leggja meiri áherslu á óskráðar reglur en skráðar; atriði og/eða hegðun sem er sjálfsagt að sýna og framfylgja.

Á KI-Huddinge er ekki farið á netið í einkaerindum í vinnunni (á LSH þurfti að loka fyrir aðgang að ákveðnum síðum á netinu ... maður spyr sig).

Á deildinni sem ég er á er séð til þess að allir komist í mat í nákvæmlega 30 mín.

Svíar hlusta á meðan aðrir tala.

Afgreiðslufólk í verslun og þjónustu sýnir viðskiptavinum undantekningarlaust kurteisi og virðingu; að minnsta kosti hef ég ekki orðið vör við annað þar sem ég hef rekið inn nefið.

Hér er ekki troðist framfyrir í biðröð eða í rulltrapperne á lestarstöðvunum.

Það er dónaskapur hér að vera óstundvís. Ef ég á að mæta klukkan sjö að morgni í vinnuna, þá er ég tilbúin í rapport í síðasta lagi klukkan sjö, helst rétt fyrir.

Þar sem ég þarf að skipta frá ofanjarðarlest í Metróinn á T-Centralen (sem má segja að sé Paddington Station Stokkhólms), er alveg tilvalið að kíkja aðeins á Sergels torg á milli lesta. Þar eru sirka óteljandi verslanir, veitingahús, söfn, kaffihús, fjölbreytt mannlíf og agalega gaman fyrir íslenska námsmenn að rölta um og drekka í sig borgarmenninguna.

Í dag notaði ég einmitt tækifærið og rölti þar um. Keypti mér líka miða í bíó á langvinsælustu myndina í sænskum kvikmyndahúsum: Mannen som hatar kvinnor, sem er gerð eftir skáldsögu Stig Larson. Við erum að tala um að ég keypti miða sem gildir á laugardaginn, en það er sem sé alltaf uppselt.

Svo keypti ég líka eitt og annað handa elskunum mínum heima. Þannig að þau fá pakka í næstu viku! Það var líka alveg FRÁBÆRT að heyra í ykkur í kvöld, ljósin mín!

Annars fer ég ekki á vakt á KI fyrr en eftir helgi, þannig að ég hef ýmislegt planað um helgina. Læra auðvitað, og svo ýmislegt fleira sem kemur í ljós!

Ykkar,

Adda


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætli ég sé sænskættaður?

 Kv.

Þinn

Heiðar Ingi (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 11:46

2 Smámynd: Elín Sigríður Grétarsdóttir

Vinkona mín lenti í því þegar hún var nýflutt til Svíþjóðar að hún stoppaði einhvern tíma á gangstétt, var að leita að einhverju í veskinu sínu eða e-ð, og þegar hún leit við, voru tvær gamlar konur komnar í röð fyrir aftan hana, þær vissu sossum ekkert eftir hverju þær voru að bíða, en töldu víst að konan væri að bíða í röð fyrst hún stoppaði svona á miðri götu :)

Hvernig gekk handlækninga? Ég fékk 8,5 - alsæl 

Elín Sigríður Grétarsdóttir, 20.3.2009 kl. 17:08

3 identicon

Já, þetta er gaman að heyra. Þú hefur greinilega rambað þarna á fólk að þínu skapi :-) En þarftu að læra??? Varstu ekki búin með skólann í bili? Eigðu frábæra helgi þarna í blíðunni, öfunda þig ekkert... Mín bíður bara skattskýrslugerð, verkefnavinna, þrif o.s.frv.

Kv. Sonja

sonja dröfn (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 19:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband