Heimili

Kæru vinir. 

Eftir að ég kom heim frá Stokkhólmi hafa heimili verið mér dáldið ofarlega í huga. Að eiga heimili, eiga einhversstaðar heima, eða eiga samastað er flestum nauðsynlegt. Staður þar sem hlutirnir manns eru, staður þar sem fólkið sem maður elskar mest er, staður þar sem maður leyfir sér oftast að fá útrás fyrir mestu gleðina og mestu sorgina, staður þar sem hægt er að vera maður sjálfur; vera í því hlutverki sem manni líður best í og sem maður er bestur í.

Í gegnum tíðina hef ég átt mörg heimili. Flest hef ég ekki átt, í merkingunni að kaupa, heldur leigt og gert að mínum. Fyrir svo utan æskuheimilið á Vopnafirði, Fagrahjalla 6.

Það eru ótal margar minningar sem fylgja þessum heimilum mínum, og af einhverjum orsökum man ég langbest allar góðu minningarnar (ætli ég sé ekki bara búin að vinna úr öllum þessum miður góðu...). Mér hefur þótt vænt um öll þessi heimili, sennilega vegna þess að ég gerði þau að mínum. Svona í gamni fyrir mig og ykkur ákvað ég að skrifa niður öll þessi heimili mín, og fyrstu minninguna sem poppaði í hugann þegar ég minntist þeirra:

Fagrihjalli 6: þegar mamma var að setja rjóma á tertu til að hafa með kaffinu eftir samkomu, og ég festi fingurinn í rjómasprautunni og mamma þurfti að fara með mig inn á samkomuna til að láta pabba losa fingurinn úr rjómasprautunni. Ég man líka eftir hljóðinu í útihurðinni þegar einhver var að koma og eftir hljóðinu í klukkunni. Ég man líka eftir stóra garðinum sem var svo gaman að leika í, og þegar ég 9 ára þóttist vera skíðadrottning og skíðaði niður "brekkuna" í garðinum.

Austurberg 10: þegar ég var að byrja í FB. Ég átti nýtt skrifborð sem pabbi og mamma höfðu gefið mér og ég valdi það þar sem ég sá fyrir að ég gæti notað það sem eldhúsborð þegar þar að kæmi. Þarna uppgötvaði ég lagið "Ég elska þig enn" eftir Magnús Eiríks. og hlustaði á  það endalaust.

Ljárskógar 20: Þarna bjó ég í forstofuherberginu hjá frænku minni. Enn í FB, um sumarið vann ég í þvottahúsi LSH frá 7:30-16:30 og svo í býtibúrinu á 11-B á LSH Hringbraut frá 17:00-21:00. Svo hjólaði ég heim í Breiðholtið. Ég man eftir því þegar við Tryggvi frændi minn fengum okkur samlokur með osti, season all og hamborgarasósu og  drukkum kók og spiluðum kleppara þar til við urðum græn í framan.

Hverfisgata: Bjó þar með stelpunum úr hljómsveitinni Afródítu (ég spilaði á bassa), og Berglindi. Sváfum allar í sama herbergi, reyktum inni í stofu og drukkum te og hlustuðum á Tappa Tíkarass og Pixies. Klipptum svo einu sinni hvor aðra, ég var með hárið allt í lokkum. Töff. Endaði reyndar með því að ég hætti í FB og fór að vinna í þvottahúsi LSH. Það þurfti náttúrlega að borga leiguna...

Tungusíða 10: fór til mömmu og pabba á Akureyri. Fór voða vel um mig í græna, litla herberginu. Fór dáldið mikið í Bleika Fílinn og vann á leikskóla.

Helgamagrastræti: bjó hjá mömmu barnsföður míns. Var enn að vinna á leikskóla. Man eftir föstudögum þar sem Brigitte lét okkur Konna fá pening til að kaupa uppáhaldið sitt: kjúkling á Kentucky Fried Chicken.

Kárastígur 9: Konni í MHÍ og ég að vinna á Mokka Kaffi. Lítil risíbúð þar sem sturtan var í kjallaranum, klósett í einu herbergi og vaskur í öðru. Man hvar ég stóð í íbúðinni þegar ég fékk að vita að ég væri ófrísk að Mána. Mér leið mjög vel í þessari íbúð. Ég man hvernig Hallgrímskirkjuturninn leit út um risgluggann í stofunni.

Tungusíða 10: komin aftur í litla, græna herbergið. Man þegar ég kom með Mána heim af fæðingardeildinni og það fór svo vel um okkur þarna inni. Man eftir bananatertunni sem Sonja hafði bakað í tilefni af heimkomu okkar Mána.

Eiðsvallagata 22: leigði risíbúð ásamt Mána mínum. Málaði hana í AFAR glaðlegum litum og hafði hengirúmið sem ég keypti í heimsókn hjá Kidda og Gitte í Danmörku inni í stofu. Þar sofnaði Máni oft á kvöldin. Afar kósý. Man líka þegar Máni hlustaði í fyrsta sinn á Whats Up með 4 None Blondes. Þá stóð hann við græjurnar inni í stofu og fílaði lagið í botn. Hann var 8 mánaða.

Norðurgata 30: Bjó þar með Mána mínum. Tók mótorhjólapróf og keypti Kawasaki Vulcan sem ég lagði pæjulega í bílastæðinu. Man þegar pabbi gaf mér straubolta svo ég gæti straujað svunturnar mínar sem ég notaði á Café Karólínu.

Kaupvangsstræti 23: bjó þar með Mána og Konna þegar Unnur og Sóley komu í heiminn. Mjög spes íbúð sem mér leið vel í. Man þegar Máni var að leika við stelpurnar sínar og sýna þeim bílana sína og spila fyrir þær á gítarinn sinn. Þær voru 6 vikna. Man þegar ég þurfti að sofa hálfsitjandi á grjónapúða rétt áður en stelpurnar fæddust. Man þegar ég labbaði kasólétt með Mána á hestbaki heim af leikskólanum, hann fékk kleinuhring með karmellu og ég fékk mér Múslíbrauð með osti.

Smárahlíð: fluttum þangað með Mána, Sóleyju og Unni. Man þegar Máni fékk rennibrautarrúmið sem honum fannst FRÁBÆRT.

Gránufélagsgata: flutti þangað ein með krakkana mína. Man þegar Sóley lagði báða lófana á heita eldavélarhellu, og þurfti að vera með umbúðir í rúmlega mánuð. Man líka hvað mér leið vel þarna. Fór í fjarnám í VMA, drakk í mig Laxness og hlustaði á Enyu.

Hríseyjargata: bjó þar þegar ég kynntist Heiðari mínum. Upplifði eitt rómantískasta augnablik ævi minnar þar. Var að tala við Heiðar í símann sem sagðist vera að labba niður Laugaveginn. Svo bankaði einhver ... það var þá Heiðar. Jiiii, hvað þetta var rómó og hvað ég var ástfangin - besta er að ég er það enn, meira segja bara enn ástfangnari. Man líka þegar Unnur og Sóley sáu Heiðar fyrst. Hann var sofandi uppi, ég var niðri að hella uppá kaffi. Stelpurnar læddust inn, góndu á hann með snuddurnar sínar, hann vaknaði og sagði: "Nei, sælar!" og þær fóru að hágráta! 4 mánuðum síðar kölluðu þær hann pabba í fyrsta sinn.

Rauðalækur 69: Leigði mér íbúð þar. Ákvað að sennilega yrði nú eitthvað úr þessu sambandi okkar Heiðars, þannig að það væri skynsamlegt að láta einkasoninn byrja í 1. bekk í Reykjavík. Man að ég stóð inni í eldhúsi þegar ég sagði Heiðari að ég væri ófrísk að Birtu. Man eftir þegar ég gaf Mána línuskautana og hann renndi sér um á linoleum dúknum í stofunni og holinu.

Laugarnesvegur 86: fyrsta íbúðin sem ég keypti. Keypti hana með Heiðari. Man þegar við giftum okkur og ég var að klæða mig í brúðarkjólinn inni í hjónaherbergi. Man þegar ég var að ganga út úr íbúðinni með pabba, og hann sagðist vera orðlaus yfir því hvað hann ætti fallega dóttur. Mér leið svooo vel þarna. Man líka þegar Arna Dís fæddist og við Heiðar hlustuðum á Coldplay um nóttina áður en við fórum á fæðingardeildina. Man líka þegar amma kom til að vera hjá börnunum á meðan við færum á fæðingardeildina og sagði við Heiðar þegar hún sá mig: Heiðar minn, það er best að þið drífið ykkur, STRAX. Arna Dís fæddist 20 mín seinna.

Víðihvammur 10: fluttum þangað þegar Arna Dís var 10 daga. Man þegar ég var þrítug og hélt stelpupartý. Man hvað var gaman þegar allar voru farnar nema Gunna, Hanna og Bína. Man líka eftir rosalegri veðurblíðu þar ... og öllum köngulónum. Man líka að Finnbogi sagðist ætla fá það uppáskrifað að við myndum ekki asnast til að flytja aftur. Höfum ekki enn skrifað undir.

Otrateigur 26: Kópavogur var ekki málið. Fluttum aftur í Laugarnesið. Nú keyptum við fína raðhúsíbúð sem okkur leið mjög vel í. Man eftir því þegar ég útskrifaðist sem sjúkraliði og sem stúdent. Man hvar ég stóð inni í eldhúsi þegar ég vissi að pabbi væri dáinn.

Laugalækur 32: búum hér núna. Og búum okkur til minningar núna. Okkur líður vel hérna.

Heimili er þar sem hjarta manns er. Á öllum þessum stöðum er það ekki íbúðin eða hlutirnir sem hafa skapað minningarnar og sem hlýja mér um hjartaræturnar, heldur fólkið sem bjó/býr með mér á heimilunum. Það er góð tilhugsun að á hverjum degi verða til nýjar minningar á heimilinu og ég er þess fullmeðvituð að ég sjálf hef mikil áhrif á það hvernig þær minningar verða í huga barnanna minna, mín og mannsins míns. Þess vegna er alltaf mikilvægt að vanda sig, gera sitt besta.

Munum, að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Ykkar,

Adda


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er bara flott hjá þér, Adda mín :-)

kv. Sonja

sonja dröfn (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 00:44

2 Smámynd: Hlynur Hallsson

Frábært! Þetta er mikil flutningasaga kæra Adda en dásamleg. Bestu kveðjur til ykkar allra,

Hlynur Hallsson, 21.5.2009 kl. 00:54

3 Smámynd: Elín Sigríður Grétarsdóttir

Elín Sigríður Grétarsdóttir, 21.5.2009 kl. 10:05

4 identicon

Mikið var þetta skemmtileg og falleg lesning. Nú veit svo miklu meira um þig og það er gott.

Kveðja,

Elsa Dögg

Elsa Dögg (IP-tala skráð) 21.5.2009 kl. 13:37

5 identicon

Enn yndisleg ferðasaga í gegnum lífið

Sakna þín kæra vinkona

Rósa

Rósa Rut (IP-tala skráð) 29.5.2009 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband