Kaffismiðja Íslands

Kæru vinir.

Takk, takk fyrir fallegu orðin ykkar. Mér finnst ég vera afar gæfusöm kona.

Eitt af því besta sem ég fæ er góður kaffibolli. Í Stokkhólmi lagði ég á mig Tunnelbana-ferð oní bæ til að fá "en stor latte med lättmjölk" (reyndar eins oft og ég gat) hjá EspressoHouse, hér í Reykjavík hefur Kaffitár verið minn staður - og er í sjálfu sér enn, en þó er eitt kaffihús/kaffibrennsla sem er hægt og bítandi að ná yfirhöndinni.

Kaffismiðja Íslands, Kárastíg 1.

Þvílíkt kaffi. Svo skemmir nú ekki fyrir að þjónustan er til mikillar fyrirmyndar; enda svo sem ekki við öðru að búast frá vinkonu minni og fyrrum samstarfsfélaga, Sonju Grant. Ég fór þangað til dæmis fyrir síðustu helgi, fékk mér latté ("alltaf stór") og croissant með sultu, smjöri og osti. Kaffið var svona sterkt konfektkaffi: Selebes, mjólkin fullkomlega þykk og mjúk, croissant-ið ylvolgt og þjónustan einstök.

Þannig að nú fer ég oní bæ hvernig sem viðrar og næ mér í kaffi hjá henni Sonju, tylli mér inn í heimilislegt andrúmsloftið ef ég hef tíma, en tek annars dásemdina með mér í pappamál.

Reyndar á ég líka ótrúlega seiga Krups kaffivél sem ég nota sirka 2x á dag hérna heima. Ég er akkúrat núna að gæða mér á einum góðum latté sem ég bjó mér til áðan í "góðu-vélinni" minni, og notaði einmitt Selebes kaffi frá Kaffismiðju Íslands. Ég kalla hana nefnilega Góðu vegna þess að úr henni fæ ég einn góðan kaffi. Samt er þetta nú eina kaffivélin sem ég á, vegna þess að ef ég helli uppá "venjulega", þá helli ég bara uppá á gamla mátann: sýð vatn, og svo kaffipokar og kaffisía.

Kaffi hefur verið hluti af mínu lífi síðan ég var 17 ára, og alltaf finnst mér það jafngott. Þegar Kaffitár opnaði kaffistað í Leifsstöð leið mér örugglega svipað og bjórdrykkjumönnum 1.mars ´89; loksins hægt að fá alvöru, gott og metnaðarfullt kaffi á meðan beðið er eftir flugvélinni sem ber mann út í heim að kynnast öðrum köffum, framandi borgum og fólki.

Bið þess að þið eigið mörg kaffi framundan, ein með sjálfum ykkur eða í góðum félagsskap.

Ykkar,

Adda


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband