VIRÐING

Kæru vinir.

Kveikjan að þessari færslu er grein í Fréttablaðinu frá 7.september. Ég hef ekki lagt í vana minn að tjá mig á þessum vettvangi um þjóðmálin og efnahagsástandið á okkar góða Íslandi, og mun þar ekki verða mikil breyting á. Nema núna.

Öll höfum við hitt á lífsleiðinni fólk sem virðist hafa einstaka ánægju af og áhuga á að velta sér uppúr málefnum náungans, oft opinberra eða áberandi einstaklinga. Oftar er umræðan því miður á neikvæðum, dæmandi og meiðandi nótum. Stundum er þessari umræðu haldið innan lítilla hópa, t.d. vinkonur að spjalla yfir kaffibolla, saumaklúbbar, kaffipásur á vinnustað eða karlar sem hittast í pottinum á morgnana. En uppá síðkastið, eða síðan haustið 2008 hefur þessi neikvæða, dæmandi og meiðandi umræða æ meir átt sér stað á opinberum vettvangi.

Silfur Egils og stjórnandinn sjálfur hefur farið mikinn; netmiðlarnir; allir bloggararnir; Facebook virðist líka vera ákjósanlegur staður til að koma af stað einhverjum meiðandi snjóboltum. Og svo blöðin: Mogginn, DV og Fbl. Við kaupum engin blöð á mínu heimili; sögðum Mogganum upp þegar við settum upp öryggiskerfið (allt spurning um peninga og hvað er nauðsynlegra en hvað), þannig að Fbl er blaðið hér. Fréttir síðastliðinnar helgar í öllum miðlum,  snérust að miklu leyti um hinn gífurlega niðurskurð sem er framundan í heilbrigðiskerfinu,og þar sem ég starfa á LSH og er að læra hjúkrun stendur mér þetta mál vægast sagt nærri. Áhersla er lögð á að allir verði nú að leggjast á eitt til að láta dæmið ganga upp. Og það er nákvæmlega það sem fólk er að gera: hleypur hraðar, gerir allt sem í sínu valdi stendur til að spara og finna leiðir til aukins sparnaðar – án þess að það komi niður á þjónustunni. Þetta er veruleiki fólksins sem er að vinna á LSH. Það eru allir sem einn maður; samstiga og vilja virkilega gera sitt besta til að gera óásættanlegar aðstæður í vinnunni sem bærilegastar. Í Fbl á mánudaginn skrifar Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra  grein. Og fjallar þessi grein ,sem kemur svona „daginn eftir“ niðurskurðarfréttirnar, á jákvæðan og uppbyggjandi hátt um  t.d. það góða starf sem er unnið á LSH? Nei. Svo sannarlega ekki. Hann eyðir þarna eingöngu neikvæðum og meiðandi orðum á fyrrum stjórnmálamenn. Rakkar þá niður á opinberum vettvangi. Fjallar um orkumál og skrif Jóns Sigurðssonar fv. formanns Framsóknar og Þorsteins Pálssonar fv. formanns Sjálfstæðisflokksins.  Og klykkir í greininni út með því að þessir tveir einstaklingar og þeirra skoðanir eigi að hans mati „helst...heima í sögubókum fortíðarinnar“. Hvað græðum við sem vinnum undir stjórn háttvirts heilbrigðisráðherra á þessari neikvæðu umræðu hans? Til hvers er hann eiginlega að þessu og fyrir hverja?

Það eru margar rannsóknir sem styðja  að börn læri það sem fyrir þeim er haft. Á mínu heimili forðumst við sem heitan eld að rakka niður fólk eða dæma það. Vegna þess að á þessu heimili búa fimm sálir sem okkur hefur verið falið að koma til manns. Ef við eigum að geta treyst því að þau verði sómasamlegir þegnar þessa lands, þurfum við að vanda okkur vel. Eitt af því mikilvægasta sem okkur er falið að kenna þeim er að virða aðrar manneskjur og að ALLIR séu mikilvægir – ALLIR skipta máli.

Þess vegna bið ég ykkur, ágæta fólk hver sem þið eruð, sem farið með penna eða takkaborð og skrifið níð um náungann að hætta því, vinsamlegast. Þetta er komið gott. Á þessu landi búa einstaklingar sem halda að úr því að menn eins og yfirmaður heilbrigðismála geta leyft sér að rakka niður aðra, þá geti þeir sko alveg stolið hjólinu hans Nonna eða skvett málningu á hús hjá fólki sem það telur skulda sér. En það eina sem við sem þjóð skuldum hvort öðru eða eigum inni hjá hvort öðru er að við berum gæfu til að bera virðingu fyrir hvort öðru.

Við erum ekki mörg sem búum á þessu landi, sem hefur marga kosti í för með sér og ókosti líka. Einn af kostunum er sá að við stöndum saman þegar þörf krefur. Leggjum nú meiri áherslu á það en hættum að skíta allt og alla út.

Ykkar, Adda


Kaffismiðja Íslands

Kæru vinir.

Takk, takk fyrir fallegu orðin ykkar. Mér finnst ég vera afar gæfusöm kona.

Eitt af því besta sem ég fæ er góður kaffibolli. Í Stokkhólmi lagði ég á mig Tunnelbana-ferð oní bæ til að fá "en stor latte med lättmjölk" (reyndar eins oft og ég gat) hjá EspressoHouse, hér í Reykjavík hefur Kaffitár verið minn staður - og er í sjálfu sér enn, en þó er eitt kaffihús/kaffibrennsla sem er hægt og bítandi að ná yfirhöndinni.

Kaffismiðja Íslands, Kárastíg 1.

Þvílíkt kaffi. Svo skemmir nú ekki fyrir að þjónustan er til mikillar fyrirmyndar; enda svo sem ekki við öðru að búast frá vinkonu minni og fyrrum samstarfsfélaga, Sonju Grant. Ég fór þangað til dæmis fyrir síðustu helgi, fékk mér latté ("alltaf stór") og croissant með sultu, smjöri og osti. Kaffið var svona sterkt konfektkaffi: Selebes, mjólkin fullkomlega þykk og mjúk, croissant-ið ylvolgt og þjónustan einstök.

Þannig að nú fer ég oní bæ hvernig sem viðrar og næ mér í kaffi hjá henni Sonju, tylli mér inn í heimilislegt andrúmsloftið ef ég hef tíma, en tek annars dásemdina með mér í pappamál.

Reyndar á ég líka ótrúlega seiga Krups kaffivél sem ég nota sirka 2x á dag hérna heima. Ég er akkúrat núna að gæða mér á einum góðum latté sem ég bjó mér til áðan í "góðu-vélinni" minni, og notaði einmitt Selebes kaffi frá Kaffismiðju Íslands. Ég kalla hana nefnilega Góðu vegna þess að úr henni fæ ég einn góðan kaffi. Samt er þetta nú eina kaffivélin sem ég á, vegna þess að ef ég helli uppá "venjulega", þá helli ég bara uppá á gamla mátann: sýð vatn, og svo kaffipokar og kaffisía.

Kaffi hefur verið hluti af mínu lífi síðan ég var 17 ára, og alltaf finnst mér það jafngott. Þegar Kaffitár opnaði kaffistað í Leifsstöð leið mér örugglega svipað og bjórdrykkjumönnum 1.mars ´89; loksins hægt að fá alvöru, gott og metnaðarfullt kaffi á meðan beðið er eftir flugvélinni sem ber mann út í heim að kynnast öðrum köffum, framandi borgum og fólki.

Bið þess að þið eigið mörg kaffi framundan, ein með sjálfum ykkur eða í góðum félagsskap.

Ykkar,

Adda


Í dag.

Kæru vinir.

Mér finnst algjörlega frábært að þrátt fyrir að aldurinn færist yfir, hætti maður aldrei að læra. Eini munurinn er kannski sá að það verður erfiðara að tileinka sér nýjan lærdóm. Oft er svo auðvelt að festast í viðjum vanans; gera hlutina bara vegna þess að þeir hafa alltaf verið gerðir eða koma fram við ákveðna einstaklinga vegna þess að maður hefur alltaf komið fram við þá á ákveðinn hátt. En það sem er svo frábært er að það er alltaf hægt að breyta til betri vegar, snúa við blaðinu.

Einhverju sinni var sagt við mig að enginn væri ómissandi. En ég er nú ekki sammála því. Allir sem ég hef umgengist í gegnum tíðina hafa haft mismunandi áhrif á mig og mitt líf. Ég hefði ekki viljað missa af einum einasta sem ég hef hitt. Sumir hafa haft meiri áhrif á mig en aðrir:

 - Guð

 - Heiðar minn

 - Mamma

 - Börnin mín

 - Adda amma

Hvað það er sem veldur því að sumir hafa meiri áhrif á mig en aðrir, veit ég ekki. Sennilega hafa kærleikur, traust og einlæg samskipti samt mikið með það að gera.

Ég bjóst aldrei við að hitta í eigin persónu John Taylor, bassaleikara Duran Duran. En hann var mitt átrúnaðargoð þegar ég var unglingur og betrekkti ég veggina í herberginu mínu með plakötum af honum og félögum hans sem ég klippti úr Bravo blöðum. En, viti menn; ég stóð FREMST við sviðið beint fyrir framan J.Taylor á tónleikunum sem þeir héldu í Egilshöll. Ég get nú reyndar ekki sagt að persóna J.Taylor hafi haft sérstök áhrif á mig; það sem var áhrifameira fyrir mig var sú hressandi upplifun þegar hin 33 ára gamla Adda hitti fyrir hina 13 ára gömlu Öddu á tónleikunum með Duran Duran. Þegar sveitastelpan var 13 og betrekkti veggina myndum af átrúnaðargoðunum hafði hún ekki hugmynd um hvað framtíðin bæri í skauti sér. Sem betur fer.

En ég var samt sem áður viss um að ég skipti máli. Á erfiðu tímabili reyndi ég þó mitt besta til að hverfa inn í sjálfa mig, en það tímabil gekk yfir og ég lærði af þeirri reynslu eins og öðrum. Það er nefnilega þannig að öll sú reynsla sem við göngum í gegnum gerir okkur að þeim einstaklingum sem við erum í dag.

Eitt af því sem ég lærði var að það er alltaf til fólk sem líður þannig að það telur sig ekki skipta neinu máli. Það trúir því að tilvera þeirra skipti ekki máli. En það er ekki þannig. Við erum öll jafndýrmæt.

Í mínum huga skiptir minna máli í lok dagsins hve mikið við höfum grætt af peningum, hve marga km við höfum hlaupið, hve margar þvottavélar við höfum þvegið, hve vel við höfum þrifið húsið okkar o.s.frv., heldur skiptir öllu máli hvernig við höfum komið fram við samferðamenn okkar. Hvaða minningar við skiljum eftir hjá þeim sem við umgöngumst.

Ykkar,

Adda.

 


Heimili

Kæru vinir. 

Eftir að ég kom heim frá Stokkhólmi hafa heimili verið mér dáldið ofarlega í huga. Að eiga heimili, eiga einhversstaðar heima, eða eiga samastað er flestum nauðsynlegt. Staður þar sem hlutirnir manns eru, staður þar sem fólkið sem maður elskar mest er, staður þar sem maður leyfir sér oftast að fá útrás fyrir mestu gleðina og mestu sorgina, staður þar sem hægt er að vera maður sjálfur; vera í því hlutverki sem manni líður best í og sem maður er bestur í.

Í gegnum tíðina hef ég átt mörg heimili. Flest hef ég ekki átt, í merkingunni að kaupa, heldur leigt og gert að mínum. Fyrir svo utan æskuheimilið á Vopnafirði, Fagrahjalla 6.

Það eru ótal margar minningar sem fylgja þessum heimilum mínum, og af einhverjum orsökum man ég langbest allar góðu minningarnar (ætli ég sé ekki bara búin að vinna úr öllum þessum miður góðu...). Mér hefur þótt vænt um öll þessi heimili, sennilega vegna þess að ég gerði þau að mínum. Svona í gamni fyrir mig og ykkur ákvað ég að skrifa niður öll þessi heimili mín, og fyrstu minninguna sem poppaði í hugann þegar ég minntist þeirra:

Fagrihjalli 6: þegar mamma var að setja rjóma á tertu til að hafa með kaffinu eftir samkomu, og ég festi fingurinn í rjómasprautunni og mamma þurfti að fara með mig inn á samkomuna til að láta pabba losa fingurinn úr rjómasprautunni. Ég man líka eftir hljóðinu í útihurðinni þegar einhver var að koma og eftir hljóðinu í klukkunni. Ég man líka eftir stóra garðinum sem var svo gaman að leika í, og þegar ég 9 ára þóttist vera skíðadrottning og skíðaði niður "brekkuna" í garðinum.

Austurberg 10: þegar ég var að byrja í FB. Ég átti nýtt skrifborð sem pabbi og mamma höfðu gefið mér og ég valdi það þar sem ég sá fyrir að ég gæti notað það sem eldhúsborð þegar þar að kæmi. Þarna uppgötvaði ég lagið "Ég elska þig enn" eftir Magnús Eiríks. og hlustaði á  það endalaust.

Ljárskógar 20: Þarna bjó ég í forstofuherberginu hjá frænku minni. Enn í FB, um sumarið vann ég í þvottahúsi LSH frá 7:30-16:30 og svo í býtibúrinu á 11-B á LSH Hringbraut frá 17:00-21:00. Svo hjólaði ég heim í Breiðholtið. Ég man eftir því þegar við Tryggvi frændi minn fengum okkur samlokur með osti, season all og hamborgarasósu og  drukkum kók og spiluðum kleppara þar til við urðum græn í framan.

Hverfisgata: Bjó þar með stelpunum úr hljómsveitinni Afródítu (ég spilaði á bassa), og Berglindi. Sváfum allar í sama herbergi, reyktum inni í stofu og drukkum te og hlustuðum á Tappa Tíkarass og Pixies. Klipptum svo einu sinni hvor aðra, ég var með hárið allt í lokkum. Töff. Endaði reyndar með því að ég hætti í FB og fór að vinna í þvottahúsi LSH. Það þurfti náttúrlega að borga leiguna...

Tungusíða 10: fór til mömmu og pabba á Akureyri. Fór voða vel um mig í græna, litla herberginu. Fór dáldið mikið í Bleika Fílinn og vann á leikskóla.

Helgamagrastræti: bjó hjá mömmu barnsföður míns. Var enn að vinna á leikskóla. Man eftir föstudögum þar sem Brigitte lét okkur Konna fá pening til að kaupa uppáhaldið sitt: kjúkling á Kentucky Fried Chicken.

Kárastígur 9: Konni í MHÍ og ég að vinna á Mokka Kaffi. Lítil risíbúð þar sem sturtan var í kjallaranum, klósett í einu herbergi og vaskur í öðru. Man hvar ég stóð í íbúðinni þegar ég fékk að vita að ég væri ófrísk að Mána. Mér leið mjög vel í þessari íbúð. Ég man hvernig Hallgrímskirkjuturninn leit út um risgluggann í stofunni.

Tungusíða 10: komin aftur í litla, græna herbergið. Man þegar ég kom með Mána heim af fæðingardeildinni og það fór svo vel um okkur þarna inni. Man eftir bananatertunni sem Sonja hafði bakað í tilefni af heimkomu okkar Mána.

Eiðsvallagata 22: leigði risíbúð ásamt Mána mínum. Málaði hana í AFAR glaðlegum litum og hafði hengirúmið sem ég keypti í heimsókn hjá Kidda og Gitte í Danmörku inni í stofu. Þar sofnaði Máni oft á kvöldin. Afar kósý. Man líka þegar Máni hlustaði í fyrsta sinn á Whats Up með 4 None Blondes. Þá stóð hann við græjurnar inni í stofu og fílaði lagið í botn. Hann var 8 mánaða.

Norðurgata 30: Bjó þar með Mána mínum. Tók mótorhjólapróf og keypti Kawasaki Vulcan sem ég lagði pæjulega í bílastæðinu. Man þegar pabbi gaf mér straubolta svo ég gæti straujað svunturnar mínar sem ég notaði á Café Karólínu.

Kaupvangsstræti 23: bjó þar með Mána og Konna þegar Unnur og Sóley komu í heiminn. Mjög spes íbúð sem mér leið vel í. Man þegar Máni var að leika við stelpurnar sínar og sýna þeim bílana sína og spila fyrir þær á gítarinn sinn. Þær voru 6 vikna. Man þegar ég þurfti að sofa hálfsitjandi á grjónapúða rétt áður en stelpurnar fæddust. Man þegar ég labbaði kasólétt með Mána á hestbaki heim af leikskólanum, hann fékk kleinuhring með karmellu og ég fékk mér Múslíbrauð með osti.

Smárahlíð: fluttum þangað með Mána, Sóleyju og Unni. Man þegar Máni fékk rennibrautarrúmið sem honum fannst FRÁBÆRT.

Gránufélagsgata: flutti þangað ein með krakkana mína. Man þegar Sóley lagði báða lófana á heita eldavélarhellu, og þurfti að vera með umbúðir í rúmlega mánuð. Man líka hvað mér leið vel þarna. Fór í fjarnám í VMA, drakk í mig Laxness og hlustaði á Enyu.

Hríseyjargata: bjó þar þegar ég kynntist Heiðari mínum. Upplifði eitt rómantískasta augnablik ævi minnar þar. Var að tala við Heiðar í símann sem sagðist vera að labba niður Laugaveginn. Svo bankaði einhver ... það var þá Heiðar. Jiiii, hvað þetta var rómó og hvað ég var ástfangin - besta er að ég er það enn, meira segja bara enn ástfangnari. Man líka þegar Unnur og Sóley sáu Heiðar fyrst. Hann var sofandi uppi, ég var niðri að hella uppá kaffi. Stelpurnar læddust inn, góndu á hann með snuddurnar sínar, hann vaknaði og sagði: "Nei, sælar!" og þær fóru að hágráta! 4 mánuðum síðar kölluðu þær hann pabba í fyrsta sinn.

Rauðalækur 69: Leigði mér íbúð þar. Ákvað að sennilega yrði nú eitthvað úr þessu sambandi okkar Heiðars, þannig að það væri skynsamlegt að láta einkasoninn byrja í 1. bekk í Reykjavík. Man að ég stóð inni í eldhúsi þegar ég sagði Heiðari að ég væri ófrísk að Birtu. Man eftir þegar ég gaf Mána línuskautana og hann renndi sér um á linoleum dúknum í stofunni og holinu.

Laugarnesvegur 86: fyrsta íbúðin sem ég keypti. Keypti hana með Heiðari. Man þegar við giftum okkur og ég var að klæða mig í brúðarkjólinn inni í hjónaherbergi. Man þegar ég var að ganga út úr íbúðinni með pabba, og hann sagðist vera orðlaus yfir því hvað hann ætti fallega dóttur. Mér leið svooo vel þarna. Man líka þegar Arna Dís fæddist og við Heiðar hlustuðum á Coldplay um nóttina áður en við fórum á fæðingardeildina. Man líka þegar amma kom til að vera hjá börnunum á meðan við færum á fæðingardeildina og sagði við Heiðar þegar hún sá mig: Heiðar minn, það er best að þið drífið ykkur, STRAX. Arna Dís fæddist 20 mín seinna.

Víðihvammur 10: fluttum þangað þegar Arna Dís var 10 daga. Man þegar ég var þrítug og hélt stelpupartý. Man hvað var gaman þegar allar voru farnar nema Gunna, Hanna og Bína. Man líka eftir rosalegri veðurblíðu þar ... og öllum köngulónum. Man líka að Finnbogi sagðist ætla fá það uppáskrifað að við myndum ekki asnast til að flytja aftur. Höfum ekki enn skrifað undir.

Otrateigur 26: Kópavogur var ekki málið. Fluttum aftur í Laugarnesið. Nú keyptum við fína raðhúsíbúð sem okkur leið mjög vel í. Man eftir því þegar ég útskrifaðist sem sjúkraliði og sem stúdent. Man hvar ég stóð inni í eldhúsi þegar ég vissi að pabbi væri dáinn.

Laugalækur 32: búum hér núna. Og búum okkur til minningar núna. Okkur líður vel hérna.

Heimili er þar sem hjarta manns er. Á öllum þessum stöðum er það ekki íbúðin eða hlutirnir sem hafa skapað minningarnar og sem hlýja mér um hjartaræturnar, heldur fólkið sem bjó/býr með mér á heimilunum. Það er góð tilhugsun að á hverjum degi verða til nýjar minningar á heimilinu og ég er þess fullmeðvituð að ég sjálf hef mikil áhrif á það hvernig þær minningar verða í huga barnanna minna, mín og mannsins míns. Þess vegna er alltaf mikilvægt að vanda sig, gera sitt besta.

Munum, að aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Ykkar,

Adda


Heima

Kæru vinir.

Það er aldeilis gott að vera komin heim. Veðrið er bara eins og það er (það er sko 18°C hiti í Stokkhólmi í dag), en ég er bara með fullt af sól og blíðu hér heima hjá mér þó hitastigið á mælinum hjá mér segi að fyrir utan húsið mitt sé 9°C hiti og svo er smárigning.

Ég er svo heppin að þjóna aðeins í Laugarneskirkju; sé um að skúra þessa fallegu kirkju. Heiðar minn tók að sér að þrífa í á meðan ég var í Svíþjóð og stóð sig svona líka ljómandi vel - allavega fékk hann voða fína umsögn frá yfirmönnunum í kirkjunni. Þegar ég fór að skúra um daginn tók ég eftir skemmtilegu skilti fyrir utan fiskbúðina okkar á Sundlaugaveginum:

Nýjar gellur

Steini kominn

Þetta er bara frábært. Ótrúlega notalegt og heimilislegt þetta hverfi sem við búum í.

Það virkilega hlýjar að innan að hitta fjölskylduna, vinina og kunnugleg andlit aftur. Og minnir mig enn og aftur á hve ég er heppin kona. Að ég tali nú ekki um að hafa farið þarna út og lært enn betur að njóta alls sem ég á.

Sumarið er að koma á Íslandi, grilllykt í loftinu og erfitt að fá krakkana til að koma inn á kvöldin. Hér á rólónum á milli raðhúsanna er alltaf mikil einnar-krónu stemmning á kvöldin og það besta er, að allir fá að vera með.

Ég er dottin aftur í stórþvotta í fína, fína þvottahúsinu mínu; þarf ekki að panta tíma eins og í Stokkhólmi og búin að þrífa alla 200 fm einu sinni síðan ég kom. Þetta er heimilið mitt og það er gott að eiga heimili til að þrífa.

Eins og allir vita voru kosningar á Íslandi í gær, og það eina sem ég bið nýja valdhafa að hafa í huga er að vanda sig eins vel og þeir geta í öllum þeim verkefnum sem þau þurfa að takast á við.

Sama ætla ég að gera (það er ekki hægt að ætlast til að aðrir breytist ef maður gerir ekki sömu kröfur á sjálfan sig), ég ætla leggja mig fram um að vanda mig eins vel og ég get í þeim verkefnum sem bíða mín. Á hvaða vettvangi sem er.

Ykkar,

Adda


Góðir farþegar, velkomnir heim.

Kæru vinir.

Þessi setning hefur aldrei haft neina merkingu í mínum huga fyrr en ég lenti á Keflavíkurflugvelli eftir tæplega þriggja klst flug frá Stokkhólmi. Allavega fannst mér orðunum vera beint sérstaklega til mín.

Kannski hef ég orðið svona egósentrísk í Svíþjóð?

En flugið var fínt og móttökurnar enn betri. Stelpurnar mínar fjórar og Mamma tóku á móti mér á flugvellinum sem var engu líkt. Það er óhætt að segja að þær hafi verið, vægast sagt, ánægðar með að endurheimta mömmuna sína. Heima biðu svo ólýsanlegar og engu líkar pönnsur frá ömmu minni. Bara yndislegt. Unnur og Sóley hafa stækkað svo mikið á þessum vikum og ekki langt í að þær vaxi móður sinni yfir höfuð. Birta hefur líka stækkað mikið en það er samt eitthvað lengra í að hún vaxi móður sinni yfir höfuð.

Ég eldaði svo togaraskammt af kjötbullar och potatis í kvöldmatinn og Arna Dís æfði sig í allt gærkvöld að segja "kjötbullar och potatis" með sænskum hreim, og sagði svo öllum í skólanum að hún hefði fengið "kjötbullar och potatis" þegar mamma kom heim ... og sumarkjól og bangsa sem hún kallar Hjarta.

Já, ég er sko heppin kona.

Og rík.

Og þakklát.

Það er ekki sjálfsagt að fá tækifæri til að kynnast nýju landi, nýrri borg, nýju fólki, nýju vinnuumhverfi, nýjum skóla, nýjum kennurum og það þarf að vanda sig við að fá jákvæða útkomu eftir svona reynslu. En ekkert gerist af sjálfu sér, og ég trúi því að sumir hlutir eigi að eiga sér stað.   

Ykkar,

Adda


Emmylundsvägen 3:227, 171 72 Solna, Sverige

Kæru vinir.

Fyrirsögnin á færslunni er heimilisfangið mitt hér í Stokkhólmi. Nú er ég búin að þrífa alla þessa 18 fm hátt og lágt, þannig að næsti skiptinemi getur farið að hreiðra hér um sig.

Það er margt sem fer í gegnum hugann eftir þessar fimm, næstum sex vikur. Mér finnst ógurlega langt síðan ég kom hingað fyrst, kvíðin, soldið sorgmædd, hálf-óttaslegin en líka full af tilhlökkun. Og ég er sátt. Mjög sátt og hamingjusöm.

Ég hef upplifað mjög margt: í verknáminu, í kúrsinum sem ég tók hérna, á öllum fleirihundruðogfimmtíu kílómetrunum sem ég hef gengið og hlaupið og á því að VERA. Ekki síst hef ég lært og komist að ótrúlega mörgu um sjálfa mig. Ég var algjörlega staðráðin í að nýta þennan tíma vel. Að læra allt sem ég gæti á Karolinska, nýta frítímann minn vel, skoða borgina, drekka í mig mannlífið og menninguna. Í rauninni gerði ég mér samt ekki grein fyrir hvert þessi tími myndi leiða mig, eða hvort þessi tími myndi leiða mig eitthvert. Ekki fyrr en núna. Auðvitað hefur svona reynsla gífurleg áhrif. Ég tala nú ekki um ef viðkomandi er í mínum sporum:

a) að eiga fimm börn

b) hafa ekki verið alein síðan sumarið 1992

c) vera í kröfuhörðu háskólanámi (eða réttara sagt: setja miklar kröfur á sjálfa sig í háskólanáminu sem hún er í) og vinna með skólanum.

Ég hef meðal annars komist að því að lífið er of stutt til að bíða eftir að það komi sá tími þar sem hægt er slaka á, njóta og vera. Tíminn er núna. En ef hann virðist ekki vera til, þá bý ég hann til. Ég hef líka komist að því að ég er agalega heppin og gæfusöm kona. Því það er mikil gæfa að geta látið draumana sína rætast. Ég á yndislega fjölskyldu sem hefur stappað í mig stálinu og bakkað mig endalaust upp. Mamma og Heiðar: án ykkar væri ég ekki hér.

Þó að ég skilji við Stokkhólm á morgun - í bili - þá tek ég sjálfa mig með til Íslands aftur, með alla upplifunina, reynsluna og perlurnar. Perlurnar eru allir góðu hlutirnir sem ég hef uppgötvað með því að fá þessa fjarlægð á lífið mitt á Íslandi, sem hafa sýnt mér hverju ég get breytt til hins betra. Það er nefnilega þannig að ég get ekki breytt öðrum en sjálfri mér.

Ég hljóp sirka 12 km í kvöld um strendurnar hérna í nágrenninu; framhjá Karlbergsslott og Kungsholm strand. Alveg dásamlegt. Ætli ég verði ekki orðin of góðu vön þegar ég fer að hlaupa á Íslandi! Nei, ég hugsa nú ekki. Það er til dæmis agalega hressandi að hlaupa eftir Sæbrautinni.

Heiðar minn fór til London í dag og ég er ekki frá því að hann hafi orðið jafnhugfanginn af þessari borg og ég. Og ég hef mjög sterka tilfinningu fyrir því að ég/við munum koma hingað fljótlega aftur. 

Elskurnar mínar. Farið vel með ykkur og ykkar. Næst þegar ég læt eitthvað frá mér hér, verð ég á Íslandi og ég hlakka til.

Ykkar,

Adda

   

  


DADO och Grill.se och Radisson SAS Royal Park

Kæru vinir.

Hvað get ég sagt? Það hefur verið einstakt að upplifa þessa borg svona alein, ganga hér um fallegu göturnar, drekka í sig mannlífið og menninguna.

En að fá einhvern til að deila því með sér ... sýna honum fallegu, uppáhaldsstaðina mína og kynna hann fyrir þessari einstöku borg ... það er bara ólýsanlegt.

Hvorugt okkar mun  nokkurn tíma gleyma stundinni þegar við hittumst aftur eftir fimm vikur á Centralstation.

Við höfum átt yndislega helgi á hóteli sem er falin perla hér í Solna, hverfinu mínu. Þetta er hótel sem er byggt fyrir mjög margt löngu, minnir helst á fallegu kastalana og hallirnar sem ég hef verið að dáðst að hér. Það er staðsett innst í Haga Parken, fjarri skarkala borgarinnar og við vöknuðum bara við fuglasöng og kyrrð. Þar er líka Sturebadet, Spa í kjallara hótelsins sem við nýttum okkur. Algjör perla. Og eins og svo oft áður hér í Stokkhólmi: þjónustan alveg til fyrirmyndar.

Þannig að ef þið eigið leið til Stokkhólms og vantar ábendingar um rómantískt hótel sem er ekki oní bæ en samt auðvelt að komast oní bæ, þá er þetta málið.

Veitingastaðurinn sem ég fann á Södermalm heitir Dado og er indverskur. Hann var algjörlega frábær. Frábær matur, frábær þjónusta og verðið hóflegt. Greinilega mikið verið lagt í að innréttingarnar, tónlistin og andrúmsloftið myndi ríma við matinn. Mæli með honum.

Í gær fórum við á svona upplifelsisveitingastað sem meistarakokkurinn Hákon Már Örvarsson mælti með við Heiðar: Grill sem er á Drottninggatan. Það var alveg meiriháttar. Allt upppantað reyndar, en við fengum borð klukkan 16 í gær. Dáldið spes að fara fínt út að borða klukkan fjögur! En við vorum svo sannarlega ekki ein, því staðurinn (sem er mjög stór) gjörsamlega fylltist af fólki um leið og opnaði klukkan fjögur. Heiðar fékk sér meðal annars túnfisk sem hann grillaði sjálfur, bita fyrir bita, á ponkulitlu steinagrilli! Ég fékk mér tyrkneska kjúklingapítu, sem var bara ólýsanleg! Svona speciality fyrir þennan stað er meðal annars það að ALLUR maturinn er grillaður á einn eða annan hátt.

Svo urðum við uppfull af þjóðarstolti þegar á þessum agalega hipp og kúl stað, var farið að spila Emilíönu Torrini; Me and Armini! Og á þessum stað eins og á öllum stöðum, búðum, holum, sjoppum, skólum, buss-um og söfnum hér í Stokkhólmi var frábær þjónusta. Mæli líka með honum.

Við fórum í bíó í gær, The Boat that Rocked, bara fín, bresk afþreyingarmynd með skemmtilegri tónlist. Bíóið, "Saga", er frekar gamalt, og áður en myndin byrjaði kom fullorðinn maður (sýningarstjórinn) fram í salinn, bauð alla velkomna í bíóið, bað okkur að slökkva á farsímum, henda ruslinu í ruslaföturnar og lét vita hvað myndin væri löng og að það væri ekkert hlé (veiiii!)! Mjög svo heimilislegt og notalegt! 

Í dag er svo ferðinni heitið á Djurgården, hitta Hrein vin Heiðars og svo ætlum við að kíkja í heimsókn til hennar Lindu og mannsins hennar, Tobiasar. Svo skemmir sko ekki fyrir, að það er glampandi sól og yndislegt veður.

Elskurnar, ég er viss um að þið eruð sammála mér um að það er ljúft og yndislegt að vera og njóta og elska.

Ykkar,

Adda


IKEA

Kæru vinir.

Þessi fyrirsögn varð nú að koma einhvern tímann meðan ég var hérna í Svíþjóð, eller hur!!!

En, já. Ég fór semsé í IKEA í dag. Og þar sem Svíar eru afar ánægðir með þessa helstu útflutningsvöru sína; IKEA, svona jafnánægðir og þeir eru með Hennes og Mauritz og Volvo og dragkedja og kolla-tækið og klossana og máluðu hestana frá Dålarna og Ingmar Bergman og Stieg Larsson og ABBA og Carolu og Ordning og Reda og 10-Gruppen og Carl Larsson og og og ...

þá bjóða þeir uppá ókeypis IKEA-strætó frá miðbænum og uppí IKEA sem er staðsett í Kongens Kurva (tekur sirka hálftíma frá bænum). Eigum við eitthvað að ræða það hvernig það er að ferðast í ókeypis IKEA buss sem er allur blár með gulum, risastórum I-K-E-A stöfum á hliðinni? Allavega gat maður ekki mikið séð út um gluggana...

En, IKEA. Ég er eiginlega ekki enn búin að jafna mig. Ég er ekki mikið fyrir að fara í IKEA á Íslandi. En ástæðan fyrir því að ég fór í morgun var ekki að gamni mínu. Nei. Mig vantaði pappakassa til að þurfa ekki að borga ...leiðum yfirvigt og geta sent skólabækurnar mínar heim á undan mér með öðrum leiðum.

(Það að námsmenn erlendis séu settir undir sama hatt og fólk sem fer í verslunarhelgarferðir erlendis er dáldið spes, en ég læt það ekki hafa áhrif á mig. Nei, ég bara bjarga mér eins og ég er vön og finn aðrar leiðir eða brosi bara framan í heiminn.) 

En, þessi búð er eins og sex eða sjö nýja IKEA búðin á Íslandi. Mér leið eins og ef ég hefði farið í matarveislu og það hefði verið allt of mikið af mat í boði og allt frekar ógirnilegt = ég hefði sem sé misst matarlystina.

Þannig að ég missti verslunarlystina, sem var nú ekki mikil fyrir.

Sem betur fer var ég ekki að fara að versla neitt nema pappakassa sem kostaði 29.90 sænskar, og mikið var ég fegin.

Og svo tók ég ókeypis IKEA bussinn aftur tilbaka.

Þetta var mjög sérstök upplifun, ég verð að segja það. Og mig langar EKKI aftur. Takk fyrir pent.

Þannig að til að jafna mig eftir þessa upplifun fór ég að finna dásamlegan indverskan matsölustað á Södermalm seinnipartinn í dag. Maðurinn minn er nefnilega að koma hingað til mín í þessa einstöku borg á morgun og þá er nú aldeilis tími til að fara út að borða á góðan indverskan! Og ég fann góðan stað.

En verið góð við hvort annað, elsku vinir mínir og ættingjar. Ég hlakka mikið til að hitta Heiðar á morgun, knúsa hann og kyssa og kynna hann fyrir þessari yndislegu borg sem ég hef tekið miklu ástfóstri við!

Ykkar,

Adda

 


Drottningholm

Kæru vinir.

Síðustu dagar hafa farið í ritgerðarvinnu. Sem hefur bara gengið ágætlega, held ég. Þar sem ég er frekar mikið í mínum eigin, litla heimi þegar ég er á svona bólakafi í ritgerðum (dreymir meira að segja að ég sé sjálf í sporum viðfangsefnisins ... frekar langt gengið, eller hur), spegla sjálfa mig ekki mjög mikið í öðrum - bara ekkert, og er því já, það má segja að ég sé í sjálfskipaðri einangrun. Þannig að á annan dag Páska ákvað ég að hitta fólk. Og ekki bara eitthvað fólk, nei, nú skyldi bara farið í heimsókn til Carls XVI Gustavs og Silviu, Victoriu og Madeleine og sæta bróður þeirra Carls Philips og svo má ekki gleyma tengdasyninum tilvonandi, Daniel.

Það er reyndar verið að slá því hér upp í velmeinandi dagblöðum eins og Metro og Expressen að Carl Philip sé að slá sér upp með einhverri idol-stjörnu. Nett hneyksli. En þetta segi ég nú bara svo makalausu vinkonur mínar fari ekki að halda að ég hafi beðið um símanúmerið hans fyrir þær - þar sem ég var nú einu sinni á leið heim til hans.

Svo að ég fór í nýja, fína, sumarpilsið mitt, fína peysu og spariskó og hélt af stað. Fyrst var það Tunnelbana á T-Centralen, svo Pendeltåg til Brommaplan og þaðan með Buss bara næstum heim að dyrum á Drottningholm. Þar sem þau búa, blessað fólkið, í alveg hreint agalega stóru húsi. Ekki myndi ég vilja þurfa að þrífa þar; nei, takk, less is more.

Það voru reyndar dáldið margir að fara í heimsókn um leið og ég.

En þarna búa þau og á milli 12 og 15:30 mega allir koma í heimsókn sem vilja. Þannig að ég fór og bjóst við að fá kannski Kanelbuller og kannski smá-saft tillsammans. En nei. Það sást hvorki tangur né tetur af fjölskyldunni og væri ég ekki hissa þó þau hefðu bara brugðið sér af bæ, rétt sem snöggvast, til að losna við að hitta allt þetta fólk sem vildi koma í heimsókn.

Ég fór inn í höllina sem er MJÖG falleg. Ég hef áður minnst á Jane Austin-stemmningu í öðrum húsum hér í borg, en Drottningholm slær öllu við. Þar er til dæmis salur sem hefur örugglega verið brúkaður sem danssalur hér áður fyrr. Þegar ég stóð þar inni var ekki erfitt að sjá fyrir sér svona senu:

Það er árið 1789 og í höllinni er verið að halda kynningarveislu fyrir hennar hátign prinsessuna, hertogaynju af Hälsingland. Um allt eru þjónar með hvítar hárkollur, konur í kríalínkjólum sem eru svo þröngir að þeim liggur við yfirliði, karlar með bumbur, hárkollur, í hvítum sokkum og hnébuxum. Og svo kallar einn þjónninn: "Hans hátign; Adolf Fredrik og drottning hans, Lovisa Ulrika af Prússlandi!" Og svo sigla þau inn í salinn þar sem gestirnir á dansleiknum dansa.

Bara dásamlegt. Svo er það garðurinn! Hann er RISAstór og dásamlega fallegur. Með gosbrunnum, fallegum trjám og jurtum. Það var mjög gott veður þegar ég var þarna á mánudaginn, en ég er viss um að það er yndislegt að koma hingað um hásumar þegar allt er í blóma.

En eins og áður sagði var fjölskyldan ekki viðlátin, en hinir konunglegu varðmenn sáu til þess að enginn kæmi of nálægt þeirra húsakynnum. Það er nefnilega bara lítill hluti af höllinni sem er til sýnis og sem hefur verið viðhaldið að mestu leyti í upprunalegu ástandi. Sá hluti hallarinnar þar sem fjölskyldan hefur sitt prívat-heimili hefur verið endurgerður og er að sjálfsögðu ekki til sýnis.

Ég hætti mér einu sinni einu skrefi of nálægt hliðinu þar sem kungliga familjen ekur bílunum sínum í gegn; áttaði mig samt engan veginn á ósýnilegu línunni í mölinni sem ég átti örugglega að sjá! Það var eins og við manninn mælt: ungur, konunglegur varðmaður (þeir eru semsé hermenn í sænska hernum) kom með byssuna sína að mér og sagði frekar hranalega: "Respektera! Respektera! Respektera området!" Þannig að íslenska konan í fína sumarpilsinu sínu hrökklaðist yfir ósýnilegu línuna!

Ég gekk svo um allt svæðið (sem var ekki girt af, það er) í blíðunni. Þetta er alveg yndislegur staður og mæli ég með því að fara þangað. Það var miklu meiri upplifun að koma til Drottningholm heldur en Kungliga Slottet í Gamla Stan. Drottningholm er náttúrlega ekki oní bæ, þar var mikið af Svíum með kanelbullar í körfum og saft á brúsa, en túristar í miklum minnihluta. Svo er svo mikil kyrrð þar og einstaklega fallegt allt umhverfið. Mæli með því.

Í gær hitti ég kennarann minn í KI, hana Helen. Alveg einstakt að eiga samskipti við kennara og starfsfólk hér á Karolinska Institutet og Karolinska Universtitetssjukhus. Kannski hef ég bara verið einstaklega heppin, en allir eru svo kurteisir og vilja svo innilega vera mér innanhandar. Sama með Helen. Ég hef lært heilmikið á þessu tveggja vikna Literature Review námskeiði, og hlakka til að nýta mér þessa nýju þekkingu áfram í náminu mínu.

Síðasti sænskutíminn var í kvöld. Það var jafndásamlega gaman og alltaf. Vissuð þið að Svíar fundu upp rennilásinn = dragkedja og píptækið? Þetta námskeið hefur hjálpað mér mikið í sænskunni + líka verið mjög skemmtilegt.

Veðrið er alveg með ólíkindum, og þarf ég að beita sjálfa mig hörku til að sitja hér við tölvuna og vinna á meðan sólin gjörsamlega grillar mig! 

Njótið vorsins, elskurnar, og lífsins.

Ykkar,

Adda


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband