12.4.2009 | 20:43
Glad Påsk!
Kæru vinir!
Gleðilega páska og takk fyrir allar góðu kveðjurnar!
Ég vaknaði við sólina í morgun fyrir allar aldir, og þar sem það var algjörlega ómögulegt að halda áfram að sofa og líka ómögulegt að vera hérna inni í herberginu mínu góða fyrir hita, ákvað ég að réttast væri að fara út í sólina. Leiðinni var heitið í páskamessu í Betlehemskyrkan. Það var mjög notalegt, og sagði presturinn meðal annars skemmtilega sögu úr fjölskyldu sinni sem hann tengdi við frásögn Biblíunnar af upprisunni og átti sér stað fyrir sirka fimm árum:
Börnin hans (prestsins) voru mikið búin að suða um gæludýr, en þar sem hann (presturinn) er með ofnæmi fyrir köttum og hundum, ákvað fjölskyldan að fá sér naggrís sem þau kölluðu Ebbu. Hún var mikill gleðigjafi bæði hjá fjölskyldunni og nágrönnunum. En einn daginn týndist Ebba. Allir voru kallaðir til að leita að henni, vinir, ættingjar og nágrannarnir. En ekki fannst greyið. En á ÞRIÐJA degi eftir að Ebba týndist, fer presturinn að huga að rósarunna sem þau hjónin voru með í garðinum hjá sér. Þá verður hann var við einhverja hreyfingu í moldinni, og þar var þá fröken Ebba að rísa upp á þriðja degi eftir að hún týndist! Og svo líkti presturinn gleði barnanna við að sjá Ebbu aftur við gleði kvennanna þriggja sem sáu Jesú fyrst eftir upprisuna.
Börn komu meira við sögu í þessari messu, því í lok hennar gáfu börnin öllum í kirkjunni páskaliljur sem ég er einmitt með í vasa í glugganum mínum núna.
Eftir messuna settist ég út á uppáhaldskaffihúsið mitt, EspressoHouse og lamaðist úr hita, en fannst náttúrlega nauðsynlegt að fá mér kaffi þrátt fyrir hitann!
Ég var búin að ákveða að kaupa mér kjól í dag sem ég er búin að horfa á í búðarglugganum síðan ég kom. En svo var bara þessi blessaði kjóll eingöngu fallegur í búðarglugganum - ekki á manneskju = mér. Fékk mér bara ægilega sætt sumarpils í staðinn á 98,- sænskar í sænsku súperbúðinni; Hennes og Mauritz.
Takk fyrir páskaeggið! Ég mun nú ekki hafa það af að klára það í dag! En málshátturinn var:
Bragð er að þá barnið finnur.
Það er dáldið spes að hér er ekkert eins og það hafi verið páskadagur í dag. Allar búðir opnar (nema Systembolaget) og bara eins og það sé venjulegur sunnudagur. Það var reyndar óvenjulega mikið af fjölskyldufólki að spássera. Sennilega hefur aðskilnaður ríkis og kirkju hér í Svíþjóð um áramótin 2000 eitthvað með þetta að gera. Svo má heldur ekki gleyma að hér býr fólk sem kemur gjörsamlega allsstaðar að úr heiminum, með fjölbreytta menningu, gildi og trú sem bakgrunn. Það hefur líka mikil áhrif, hugsa ég.
En fyrir ykkur sem eruð að missa ykkur yfir Melodifestivalen er best að benda ykkur á þau tíðindi sem ég las í gær, að samkvæmt nýjustu tölum muni Finnar vinna fyrra undanúrslitakvöldið, SVÍAR verða í 2. og Ísland í 3ja. Þeir sem eru gjörsamlega að missa það yfir spenningi að heyra og sjá sænska framlagið get ég bent á www.svt.se og svo Melodifestivalen. Svíar eru allavega að missa sig yfir þessu. Fröken Charlotte Perelli og Malena Ekman (sem syngur sænska lagið) eru agalega miklar vinkonur og er dáldið skemmtilegt viðtal á þessari heimasíðu sem Perelli tók við Malenu daginn eftir að hún vann innanlandskeppnina. Þeir kunna þetta, Svíarnir!
Og fyrir ykkur hin sem eruð að missa ykkur yfir því hvort það verði áfram gott veður hér, get ég sagt ykkur að svo sé. Þannig að ég grillast á morgnana og læri á kvöldin! Enda langt komin með ritgerðarnar, þannig að þetta er fínt prógramm!
Njótið lífsins!
Ykkar,
Adda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.4.2009 | 17:12
Skeppsholmen
En sú blíða!
Það var búið að spá góðu veðri um helgina, en HerreGud! Í dag voru 24°C, glampandi sól, alveg heiðskír himinn og logn! Það kallaði á aðgerðir á mínum bæ, þar sem ég hafði ekki gert ráð fyrir þessu hitastigi þegar ég pakkaði oní töskur á Íslandi 12. mars síðastliðinn.
Og þar sem neyðin kennir naktri konu að spinna, eða klippa í mínu tilfelli, þá breytti ég druslugallabuxunum sem ég tók með mér frá Íslandi í hámóðins stuttbuxur. Og svo skellti ég mér í ermalausan bol, tók með mér bók, pening, myndavél, húslykla, símann og vatn, arkaði niður á lestarstöð sem flutti mig niður á T-Centralen. Þar fór ég út og gekk í gegnum bæinn og yfir Skeppsholmen-brúnna og endaði á Skeppsholmen þar sem ég breiddi úr sjálfri mér og naut sólarinnar og lífsins.
Góður maður sem ég þekki er alltaf að segja mér að lesa bókina Mátturinn í núinu. En ég held að ég þurfi þess ekki eftir að hafa dvalið hér undanfarnar vikur. Því ég hef komist að því að mátturinn er í núinu. Að geta notið augnabliksins er hæfileiki sem þarf að þróa með sér. Ég veit ekkert um það hvað morgundagurinn ber í skauti sér (þó ég reyni að hafa MIKIL áhrif á það með endalausum planeringum og skipulagningum), en ég veit hvað er NÚNA. Ef ég leyfi mér að njóta þess að vera til NÚNA en ekki á næsta ári þegar ég er búin að öllu og engu, þá verð ég hamingjusamari, ánægðari og betur fær um að gefa af mér til þeirra sem reiða sig á mig.
Þess vegna hef ég líka notið þess svo innilega að vera hérna; hvers augnabliks. Auðvitað koma upp þær stundir sem ég sakna fjölskyldunnar minnar alveg hreint ógurlega, en þá hugsa ég bara hvað ég sé heppin að eiga þessa yndislegu fjölskyldu heima. Án þeirra allra væri ég ekki hér. Ég er hér núna og nýt þess og þegar ég kem heim mun ég hugsa til tímans í Svíþjóð með þakklæti fyrir að hafa meðal annars kennt mér að njóta augnabliksins og þakka fyrir að VERA.
En núna er ensku ritgerðinni um það bil lokið og þá er það sú íslenska. Og meðan ég skrifa hana mun ég maula íslenskt NóaSírius páskaegg sem elskurnar mínar sendu mér!
Takk, takk, takk þið öll heima; Heiðar minn, Steinunn, Máni, Sóley, Unnur, Birta, Arna Dís, Mamma, Þórdís, Amma, Ella, Konni, Didda, Jónsi, Sonja, Gummi, Gabríel, Snæfríður, Svanur, Auður, Steinunn tengdó, Palli, Heiðdís, Gísli, Dagur, Heiðar Logi, Birna, Toggi, Katrín Klara.
Munum eftir að þakka og kyssa og knúsa fjölskylduna okkar.
Ykkar,
Adda
P.s. bætti við myndum af Stokkhólmi í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.4.2009 | 21:54
Birger Jarlsgatan
Gott fólk.
Það hefur verið sérstakt undanfarna daga að þurfa ekki að mæta í vinnuna upp á Karolinska. En þar sem ég er nú ekki þekkt fyrir að sitja mikið með hendur í skauti og gera EKKERT, fer ég nú ekki að fara að byrja á því núna. Þannig að skipulagða konan frá Íslandi skipuleggur dagana rétt eins og hún væri í vinnu.
"Á ekkert að slaka neitt á eða?", gæti einhver spurt. Jú, jú, það verður gert. En á þriðjudaginn fór ég á fund hjá kennaranum mínum í KI, henni Helen, og við ræddum fram og tilbaka um ritgerðina sem ég þarf að skila henni nk. þriðjudag. Ég fékk grænt ljós á ritgerðarefnið hjá Helen, og einnig grænt ljós á ritgerðarefnið frá íslenska kennaranum mínum fyrir íslensku ritgerðina sem ég þarf að skila þegar ég kem heim.
Eins og allir vita sem þekkja mig, á ég það til að sökkva mér dáldið oní verkefnin sem ég tek mér fyrir hendur.
Þannig að, hvað þessar ritgerðir snertir, þá er ég á bólakafi.
En til að ég nái nú andanum og átti mig á því að það er líf fyrir utan ritgerðarefnið (sem er að sjálfsögðu hvorki það einfaldasta né það þægilegasta, eins og við er að búast af mér), hef ég skipulagt á hverjum degi eitthvað sem krefst þess af mér að fara út af heimilinu.
Í gær, miðvikudag, fór ég á sænskunámskeiðið. Og lærði meðal annars að segja: 77.777 á sænsku. Og af því að ég er alltaf svo góð með mig, þá verð ég að koma því að, að það gat enginn nema ég sagt 77.777 á sænskunámskeiðinu í gær - nema náttúrulega hún Brit, en hún er nú einu sinni kennarinn.
Svo á leið heim af sænskunámskeiðinu gekk framhjá Grand-bíóinu og skellti mér á Slumdog Millionare sem allir í fjölskyldunni minni voru búnir að sjá nema ég.
Í dag hitti ég Lindu, deildarkennarann minn/vinkonu mína, og gengum við núna um nýrri hverfi Stokkhólms. Til dæmis Birger Jarlsgatan þar sem allar dýru búðirnar eru: Louis Vuitton, Chanel, Yves Saint Laurent og þess háttar. Þarna verslar posh-lið Stokkhólms, segir Linda, svo sem krónprinsessan og hennar slekti, stjörnurnar og svo "þetta ríka fólk, sem er ríkt en veit samt ekki neitt, þú veist, er bara ríkt", eins og Linda útskýrði svo skemmtilega.
Dagurinn í dag er að kvöldi kominn; ég er að farast úr harðsperrum eftir víðavangshlaupið í morgun en hugsa samt að ég byrji Föstudaginn langa á öðru hlaupi ... það er nefnilega spáð 17 STIGA HITA OG SÓL alla páskahelgina!
Elskurnar mínar, verið kurteis og góð við hvert annað.
Ykkar,
Adda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.4.2009 | 22:13
Vasa Parken
Elsku vinir!
Nei, ég er ekki á leið heim alveg strax! Verknámið mitt var í 3 vikur og svo er ég núna í rúmlega 2ja vikna námskeiði hjá Karolinska Institutet - sem er bóklegt. Einnig þarf ég að gera ritgerð tengda verknáminu sem ég þarf að skila til HÍ. Þannig að ævintýrum mínum hér og víðavangshlaupum er hvergi nærri lokið.
Í dag var ég til dæmis á mjög áhugaverðri ráðstefnu í KI um mismunandi viðhorf milli menningarheima sem snúa að heilbrigði, heilsu og sjúkdómum. Einnig hittumst við skiptinemarnir í hjúkrun = sjuksköterskorutbytestudenter (smart...) og bárum saman kennsluna í hjúkrun milli landa og mismunandi menningu. Það var til dæmis mjög gaman að heyra frá tveim hjúkrunarnemum sem koma frá Zambíu - "The Real Africa", eins og þau sögðu sjálf!
Það var dáldið skemmtilegt að Svíar virtust koma okkur öllum eins fyrir sjónir, þó við værum frá: Íslandi, Írlandi, Englandi, Ítalíu, Zambíu, Finnlandi og Noregi:
kurteisir - vinalegir - með mikið af óskráðum reglum - lifa reglubundnu lífi - mjög stundvísir.
Prófessorinn sem stýrði umræðunum kom svo með nokkra góða punkta um "þú veist þú ert Svíi þegar...":
a) þú ert mjög alvarlegur og fullur virðingar þegar þú gengur inn í IKEA verslanir sem eru ekki í Svíþjóð.
b) þú ELSKAR Melodifestivalen = Eurovision Song Contest.
c) þú getur ekki gengið yfir götu á rauðu ljósi, jafnvel þó það séu nákvæmlega engir bílar sjáanlegir.
d) þér líður mjög illa yfir að henda rusli sem er mögulega hægt að endurvinna, í venjulegt, óendurvinnanlegt rusl.
e) tré verða ekki að skógi nema þú sért +20 mín að keyra í gegnum hann.
f) þú færð samviskubit ef þú ert ekki úti þegar sólin skín.
g) þú átt sumarhús sem er ekki með rennandi vatni, rafmagni, salerni né neinum öðrum nútímaþægindum og skilur ekkert í af hverju fólk vill ekki heimsækja þig þangað.
h) þegar þú ferð út að borða með einhverjum; hvort sem það er stefnumót, með vinnufélaga eða vini/vinkonu, er reikningnum alltaf skipt nákvæmlega jafnt - uppá krónu.
Annars verð ég að deila enn einu jákvæða viðmótinu sem ég hef fundið fyrir hér:
Ég tók það stóra skref um daginn að kaupa mér gallabuxur. Ekki bara hvaða gallabuxur sem er, heldur þið vitið svona niðurmjóar, "slim" eða "skinny" snið. Athugið: ég hef ALDREI átt svoleiðis gallabuxur. En allavega, svo á föstudaginn ákvað ég að vígja nýju pæjubuxurnar. En þegar ég er komin í þær og komin hálfa leið í vinnuna tek ég eftir að saumurinn á annarri skálminni innanverðri er snúinn. Þið vitið, þannig að saumurinn endar framan á buxunum einhvern veginn í staðinn fyrir að vera bara beinn niður. Þannig að ég kem heim úr vinnunni, frekar deprimeruð yfir að eiga bara hálf-hallærislegar pæjubuxur. En ákveð samt að prófa að fara með þær aftur í búðina. Við erum að tala um að ég keypti þær í RISAstóru vöruhúsi sem heitir Åhléns og er staðsett oní bæ. Þetta er vöruhús með voða mikið af merkjavöru og fíneríi; t.d. Calvin Klein, Filippa K, Diesel, DKNY, InWear o.fl., o.fl. Pæjubuxurnar eru nú reyndar ekki með svona fínt merki límt á sig, bara gott sænskt: .att.
En áfram með söguna: ég fór svo í búðina áður en ég fór í vinnuna á laugardaginn, alveg með hjartað í buxunum. Ég var sko búin að vera í buxunum í einn dag, búin að taka náttúrlega af þeim öll merki OG búin að þvo þær einu sinni. Leggið nú höfuðið í bleyti og hugsið vel og vandlega um hvernig mér yrði tekið í íslenskri verslun?
En viti menn! "Já, hvað segirðu! Heyrðu þú færð bara nýjar! Viltu eins og þessar eða viltu fá peninginn tilbaka eða viltu skoða þig um í búðinni?"
Hvað getur maður sagt? Jú, ég á agalega skvísulegar pæjubuxur!
Njótið kvöldsins, næturinnar og morgundagsins; hér er komið sumar á íslenskan mælikvarða! Underbart!
Ykkar,
Adda
p.s. Eitt gullkorn sem hefur reynst mér vel:
Við ráðum engu um hvaða spil lífið lætur okkur í hendur, en við ráðum öllu um hvernig við spilum úr þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.4.2009 | 20:38
EspressoHouse
Hvað gerir maður ekki fyrir kaffibolla? Ég bara spyr. Ég fór allavega með Metrónum alla leið niður í bæ í dag, keypti mér tvo létta latté á EspressoHouse og heim aftur. Og hef sjaldan fengið jafngóða latté, takk fyrir pent.
Sérstaklega þar sem ég horfði á tvo þætti af hinum snilldargóðu Trial and Retribution í gegnum svt.se á meðan. Góðir Svíarnir, að hafa þetta svona á netinu! Hérna heita þættirnir reyndar Brottet och Straffet.
Verknáminu mínu á K 67 á Karolinska Universitetssjukhus í Huddinge lauk formlega í gærkvöldi. Mikið sem ég á eftir að sakna þessa góða fólks; starfsfólksins og allra sjúklinganna sem ég var svo heppin að fá að annast og kynnast. En það er meðal annars það góða við þessa reynslu: ég hef kynnst góðu fólki sem ég mun halda sambandi við áfram.
Það er svoooooo ótal margt sem ég er með í reynslubankanum núna sem á eftir að nýtast mér um ókomin ár í lífi og starfi. Mér finnst ég afar, afar, afar heppin að hafa fengið þetta tækifæri og hef svo sannarlega reynt að gera sem allra mest úr því.
Til að halda uppá verknámslokin fór ég á fínan veitingastað eftir vinnu í gærkvöldi og fékk mér eitt hvítvínsglas - já, bara eitt því það er ekki skynsamlegt að vera:
a. Kona
b. Ein á ferð
c. Eftir klukkan 22 á laugardagskvöldi í miðborg Stokkhólms.
Nei, þá er betra að vera með allar heilasellur í lagi!
Nú tekur við massíf verkefnavinna: eitt á ensku og eitt á íslensku og einn fyrirlestur á ensku og á milli þess sem ég lít uppúr tölvunni hef ég ýmislegt planað sem kemur í ljós síðar...
Farið vel með ykkur og ykkar, elskurnar.
Ykkar,
Adda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.4.2009 | 19:32
Kungliga Slottet
Morgunsólin vakti mig í morgun klukkan níu. Í allan heila dag hefur verið alveg yndislegt veður, enda fullt af fólki í á ferð, kaffi- og veitingahúsin búin að setja stóla og borð út og Åhléns búið að stilla 24 sólgleraugnastöndum fremst í búðina.
Ég átti frí í dag og ákvað að nýta þetta góða veður og fríið til að túristast dáldið. Klæddi mig í kaupstaðarföt og fór með lestinni niður á T-Centralen og gekk þaðan niður í hið dásamlega Gamla Stan. Á leiðinni þangað gekk ég meðal annars framhjá Systembolaget sem er Ríkið þeirra hér í Svíþjóð. Og það var röð fyrir utan og þurfti að hleypa inn í hollum! Er ekki örugglega fimmtudagur í dag? Mér skilst reyndar á hérlendum að hér sé töluvert um drykkjuvandamál sem margir vilja meina að sé því að kenna að áfengi sé eingöngu selt í Systembolaget. Hummm, eitthvað kannast maður við að hafa heyrt svipaða skýringu heima á Íslandi.
Kungliga Slottet er staðsett eiginlega um leið og komið er inn í Gamla Stan. Það er hinn opinberi dvalarstaður konungs og fjölskyldu hans. Það var ansi áhugavert að ganga þarna um og skoða hin konunglegu hertygi, hina konunglegu vagna og hinar konunglegu gersemar. Sænska konungríkið á langa sögu, eða síðan á 15. öld, skilst mér. Þannig að sögur fortíðarinnar bókstaflega leka af veggjunum, sýningargripum og innanstokksmunum. Sá til dæmis brynjur sem ég get ómögulega skilið að nokkur lifandi maður hafi getað hreyft sig nokkurn skapaðan hlut í og einnig brúðarkjól einnar drottningarinnar sem kallaði á svo þröngt korselett innanundir að hún hefur örugglega ekki getað andað blessunin.
Öll klæðin sem eru þarna til sýnis eru afar íburðarmikil og gulli ofin. Þannig að það skýtur frekar skökku við þegar allt í einu dúkkar upp kjóllinn sem Viktoría krónprinsessa var í á 18 ára afmælisdaginn (þegar hún varð 18 ára, varð hún einnig staðgengill konungs og ber því miklar konunglegar skyldur). Þessi kjóll er bara blár (kóngablár, auðvitað), nær upp í háls, með yfirdekktum tölum að aftan og á ermunum. Agalega einfaldur eitthvað, svona miðað við allt gullið og bryddingarnar. En mjög fallegur engu að síður.
Það eru varðmenn um alla höllina sem eru hermenn úr sænska hernum. Svo eru fallbyssur í portinu fyrir utan Representationsvåningarna, sem væntanlega er skotið af við hátíðleg tilefni. Það er einmitt lok fyrir fallbyssuhlaupinu sem að sjálfsögðu er gult og blátt...
Eftir að hafa skoðað höllina gekk ég um Gamla Stan, fór í allskonar hliðargötur og endaði svo á veitingahúsi þar sem ég tyllti mér niður í sólinni og fékk mér gómsæta laxasúpu með graslauk. Ægilega góð!
Áður en ég fór heim, rakst ég á búð sem selur eiginlega eingöngu Cheap Monday gallabuxur af öllum stærðum og gerðum og verslaði eitt stykki fyrir einkasoninn.
Njótum dagsins, elskurnar, því við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sínu.
Ykkar,
Adda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.3.2009 | 21:02
Hej, jag heter Adda og er sjusköterskastudent fran Island...
Þetta hef ég þurft að segja nokkur hundruð sinnum síðastliðnar tvær vikur; og bara orðin nokkuð klár í því! Og svo segja sjúklingarnir: "Jaha! Va´bra! Det er jette kul; fran Island, Jaha!" Nákvæmlega sirka svona.
Það hefur undantekningarlaust vakið jákvæð viðbrögð að ég skuli vera frá Íslandi, og allar áhyggjurnar sem ég hafði áður en ég fór yfir því að sjúklingarnir myndu örugglega ekki vilja fá einhvern íslenskan hjúkrunarnema til að annast sig, voru algjörlega óþarfar. Það hefur eiginlega frekar haft þau áhrif að sú staðreynd að ég sé frá Íslandi, hefur orðið upphafið að samskiptunum sem, eins og allir vita, eru afar, afar, afar, afar mikilvæg í hjúkrun.
Og hér hef ég lært SVO mikið og margt gott um samskipti hjúkrunarfræðinga við samstarfsfólk sitt og sjúklinga. Það, ásamt óendanlega mörgu öðru tek ég með mér til Íslands og miðla af reynslunni, í orði og verki.
Svo má ekki gleyma að ég orðin afar sleip í að tala sænsku; við erum að tala um að það er undantekning ef ég þarf að bjarga mér á ensku. Enda er það alls ekki alltaf hægt, þar sem stærsti hluti sjúklinganna á deildinni kann bara hreinlega ekki ensku. Og þá er ekki um annað að ræða en að tala sænsku.
Það er að sjálfsögðu vegna þess að samskiptin skipta svo agalega miklu máli í starfinu: að geta skilið það sem sjúklingarnir segja með orðum og hvernig þeir tjá sig án orða.
En ég verð að koma einu hérna að: þegar 10. starfsmaður deildarinnar sagði við mig í dag: "Heyrðu, já, þú kemur frá Íslandi! Ég sá einmitt einu sinni bíómynd á íslensku: Hrafninn flýgur!" Nei, men Herre Gud! Við erum að tala um að það eina sem Svíum dettur í hug þegar þeir heyra minnst á Ísland (þ.e. öllum öðrum Svíum en sérfræðilæknum sem dettur bara í hug Tónlistarhús) er bíómyndin Hrafninn flýgur.
Og vitið þið af hverju? Þau horfa á hana í skólanum! Það er skylda hjá skólabörnum að horfa á Hrafninn flýgur! Hvaða díl gerði H. Gunnlaugsson eiginlega!?
Þó kom einn aðstoðarlæknirinn mér afar skemmtilega á óvart í gær, hann Gustaf, því hann hafði einmitt verið að horfa á íslenska mynd um helgina: Með allt á hreinu, og fannst hún alveg agalega skrýtin!
Í dag hljóp ég enn nýja leið í víðavangshlaupi dagsins, og mikið sem þessi borg er falleg. Allt fullt af grænum svæðum. Ég hljóp eftir Holberg strand áðan (beint á móti Karlbergsslott), aðeins farið að rökkva og ég taldi 44 sem ég mætti á leiðinni sem voru líka í víðavangshlaupi eins og ég. Ég efast stórlega um að það þurfi að loka leikskólum hér vegna mengunar...
Allir sem eiga eftir að heimsækja Stokkhólm rétti upp hönd ... og fari þangað.
Ykkar,
Adda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.3.2009 | 18:41
Carl Larsson
Ég heyri á ykkur, kæru vinir, að veðrið er ekki að leika við Ísland þessa dagana. Það er sama sagan hér og er talað um að sjaldan hafi vorið verið svona seint á ferðinni í Stokkhólmi. Það er sem sé enn snjór og ískalt; sérstaklega á nóttunni. Vötnin eru öll ísilögð þegar ég er á leiðinni í vinnuna á morgnana.
En í morgun reif ég mig á fætur eldsnemma...eða það hélt ég allavega þangað til að ég uppgötvaði klukkan 14 í dag að það gæti nú bara ekki verið að allar klukkur Stokkhólms væru vitlausar nema mín! Það var sem sagt skipt úr vetrartíma í sumartíma sl. nótt, en að sjálfsögðu hafði einangraði hjúkrunarneminn frá Íslandi ekki hugmynd um það! Þannig að núna er klukkan hér tveimur klukkutímum á undan tímanum á Íslandi.
Ég fór sem sagt "eldsnemma" á sýningu á verkum Carls Larssons í sýningarsal hallar Prins Eugens í Waldermarsudde úti á Djurgarden. Carl Larsson var uppi 1853-1919 og er einn þekktasti listamaður Svía. Stundum er talað um hann sem tákn sænsku þjóðarinnar. Hann er þekktastur fyrir myndirnar sínar af fjölskyldunni sinni; börnunum 8, eiginkonunni Karin og sjálfsmyndum, aðallega vatnslitamyndir. Það er óhætt að segja að ég hafi ekki orðið fyrir vonbrigðum. Myndirnar hans eru alveg yndislegar. Sérstaklega var ein mynd, "Bruden" (1883), sem hann málaði af Karin á brúðkaupsdaginn sem snerti mig. Sú mynd var til sýnis í fyrsta skipti í 70 ár og sýnir Karin á hvítum brúðarkjól í gróðursælu umhverfi. Mjög falleg.
Það var líka alveg ógurlega gaman að koma í þessa höll. Ef þið ímyndið ykkur dansleiki á 18. öld, svipað og í bókum/myndum Jane Austin, þá gætu þeir hafa verið haldnir hér. Hátt til lofts, stórir og miklir stigar, tvöföld hurð út í vel hirtan garð og allir gömlu munirnir á sínum stað. Rétt eins og allir hafi bara skroppið út á fasanaveiðar...
Þetta er bara ævintýri. Eins og lífið er ævintýri fullt af tækifærum sem bíða okkar!
Ykkar,
Adda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.3.2009 | 21:54
Jungfrudansen og Solna Stad
Elsku vinir, ættingjar, maðurinn minn og börnin mín öll!
Takk fyrir öll hlýju orðin frá ykkur. Mér finnst ég svo lánsöm að eiga svona yndislegt samferðafólk í lífinu.
Ég komst að því í morgun eftir víðavangshlaup dagsins að það er sennilega komin tími til að fjárfesta í nýjum hlaupaskóm. Eins yndislegt og það er að hlaupa hér á allskonar göngustígum, stéttum og götum, fer það ekki alveg eins vel með skóna og að hlaupa á hamstrabeltinu í Laugum. Reyndar ætlaði ég að prófa enn nýja hlaupaleið í morgun en hljóp aðeins á mig, ef svo má segja. Endaði semsagt við mörk Solna og Sundbyberg sem er frekar langt og var næstum villt!
En ég hljóp framhjá Jungfrudansen og þar sá ég einmitt draumahúsið: gult með hvítum körmum, á tveim hæðum og með risi, með tvöfaldri útihurð, risastórri verönd og bílskúr og gestahúsi. Svo sá ég ekki betur en að það væri sundlaug í garðinum. Og svo stendur það við ströndina. Þið vitið, svona ekta sænskt-Astrid-Lindgren hús. Bara dásamlegt.
Í dag hef ég verið að gera verkefni hér í heima í Emmylundsv. 3, og þvo þvott. Það þarf víst líka að gera það þó það séu nú frekar aumingjalegir þvottar miðað við hvað ég er vön. Mér tókst reyndar að læsa þvottinn minn inni í þvottaherberginu eða réttara sagt í þvottasalnum, því hér samanstendur þvottasalurinn af 15 stórvirkum vinnuvélum sem sjá um að þvo þvottinn af stúdentunum hér. En að sjálfsögðu er kerfi á þessu eins og öllu í Svíþjóð.
1. Það þarf að panta þvottavél með a.m.k. viku fyrirvara.
2. Maður kemst aðeins inn í þvottasalinn (sem er alltaf læstur) með lyklinum sínum ef maður á pantaða þvottavél.
3. Maður kemst aðeins inn í þvottasalinn í 15 mínútur eftir að áætluðum þvottatíma lýkur.
Og ég kom semsagt sirka 17 mínútum eftir. Þannig að ég beið í 20 mínútur eftir að einhver ætti erindi í þvottaherbergið. En nú er nákvæmlega allt hreint hjá mér, þar sem ég er líka búin að þrífa alla þessa 18 fm. Sem er líka frekar aumingjalegt miðað við 200 fm sem ég þríf heima hjá mér á Íslandi.
Í vinnunni í gær hélt ég áfram æfingunni að því að verða expert í nálaruppsetningum á sjúklingum og hjúkrunarfræðingum. Og enn gekk vel...sjö-níu-þrettán.
Einnig átti ég langt samtal í gær við yfirlækni Kvinnokliniken (= kvennadeildarinnar) K 67. Hún var afar áhugasöm um ástandið á Íslandi rétt eins og danski skurðlæknirinn um daginn. Og rétt eins og danski, flínki skurðlæknirinn sýndi hún tónlistarhúsinu einlægan áhuga. Og sagði á engilsaxnesku:
The Concert Hall is a building that could play an important part in uniting the Icelandic people. Instead of being a sad monument of the past, it could be an uplifting sign of the future.
Ég hafði engin svör við þessu, og sagði henni að svo gæti alveg verið. En ég teldi nú þó að bjartsýnin og það náttúrulega eðli okkar Íslendinga í gegnum aldirnar að lifa af ótrúlegustu hörmungar, væri kannski frekar það sem kæmi Íslendingum í gegnum þetta. Að hafa heilsu, eiga fjölskyldu og vini og að geta borgað skuldir sínar um hver mánaðamót stæði sennilega hjarta fólki nær en hvort það yrði byggt tónlistarhús eða ekki.
Mér fannst líka áhugavert að báðir þessir læknar sem ég hef átt nokkuð löng samtöl við skyldu sýna þessu tónlistarhúsi svo mikinn áhuga. Hvorugur hafði heyrt minnst á milljónirnar sem hafa farið í fyrirhugað Hátæknisjúkrahús...
Eftir að vinnunni lauk í gær fór ég á bókasafnið hér í skólanum, Karolinska Institutet, og prentaði út nokkrar greinar sem ég þarf fyrir verkefnin mín. Bókasafnið er RISAstórt, og í því eru eingöngu bækur og blöð um hjúkrun, læknisfræði og tannlækningar. MJÖG skemmtilegt sem sagt, og alveg hægt að gleyma sér þar.
Hlýjar kveðjur úr sænska vorinu sem lætur bíða eftir sér! Verið hlý hvort við annað, og munum eftir að þakka fyrir allt sem við höfum.
Ykkar,
Adda
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.3.2009 | 21:55
Vastra Skogen til T-Centralen til Flemingsberg
Þetta er leiðin sem ég fer í vinnuna og í skólann í KI-Huddinge. Og svo sömu leið tilbaka. Nema þegar ég fer úr í Fridhemspladsen til að fara í DagLivs og kaupa mér í matinn.
Mjög þægilegt fyrirkomulag, þessar lestar. Aldrei þarf að hafa áhyggjur af bílastæðum, stöðumælum eða hvort nóg bensín sé á farartækinu. Lestarnar halda bara einhvern veginn alltaf sínu striki. Fyrir svo utan hvað það er notalegt að lesa í tæpan klukkutíma í lestinni fyrir og eftir vinnu. Góð byrjun og góður endir á vinnudeginum.
Ég hef sem sé verið í vinnunni/lestinni meira og minna síðan á þriðjudaginn, fer líka að vinna í fyrramálið og á svo frí um helgina. Það hefur MJÖG margt drifið á daga mína í vinnunni/verknáminu á K 67 Kvinnokliniken Gynafdelningen/Gynakutten. Svo ekki sé meira sagt. Enda má það ekki. Þannig að ég geymi það með mér, verð ríkari af reynslunni og markmiðið: að þessi reynsla geri mig að betri hjúkrunarfræðingi í framtíðinni og ekki síst; að betri manneskju.
Ég má samt til með að segja ykkur eitt. Ég er með einstakan deildarkennara. Hún hefur einstaklega gaman af starfinu sínu og finnst ógurlega gaman að hafa nema. Og hún er mjög einbeitt. Til dæmis í morgun sagði: "Adda, i dag blir du expert i PVK" = í dag var semsé markmiðið að ég yrði expert í að setja upp nálar. Eins og þið vitið er það ekki endilega það besta eða þægilegasta sem maður veit að þurfa að láta setja upp hjá sér nál. Það getur reyndar verið ansi hreint vont, óþægilegt og það jafnvel líður yfir suma ef þeir svo mikið sem sjá nál, hvað þá blóð.
Ímyndið ykkur þá að vera sænskur sjúklingur í Svíþjóð að fara í alvarlega aðgerð og fá íslenskan hjúkrunarnema frá Íslandi sem á að setja upp hjá ykkur nál?! Inte så bra!
En það sem ég hef meðal annars lært í mínu námi er að gefast aldrei upp. Og hugsa alltaf; "ég get - ég skal - ég kann". Dáldið bilað kannski en virkar, trúið mér!
Og það gerði ég í dag. Ég hef sett upp nál nokkrum sinnum, en fyrir daginn í dag var ég enginn expert. En ég ákvað að vera einbeitt, kurteis og dáldið góð með mig án þess að vera með yfirlæti.
Niðurstaðan: Ég setti upp átta nálar í dag. Í sex sjúklinga og tvo hjúkrunarfræðinga sem vinna á deildinni (þeim langaði svo að prófa að fá nál...). Og það heppnaðist í fyrsta í ÖLL skiptin og gekk eins og í sögu. Eiginlega ótrúlega vel. Sjö-níu-þrettán.
Ég bara varð að monta mig aðeins.
Í kvöld fór ég svo í annan tímann í sænskunámskeiðinu. Lærði meðal annars að segja hjúkrunarfræðingur á sænsku: Sjuksköterska. Ef ykkur finnst það erfitt, prófið þá: "sju sjuksköterskastudent skåtter sju sjömän". En það er semsé heimaverkefnið mitt fyrir næsta tíma.
Ef dagarnir eru erfiðir og dimmir, þá er gott að líta upp og þakka fyrir lífið sem við eigum og öll tækifærin sem bíða okkar. Ef einar dyr lokast, þá opnast tvær nýjar.
Ykkar,
Adda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)