Skeppsholmen

En sú blíða!

Það var búið að spá góðu veðri um helgina, en HerreGud! Í dag voru 24°C, glampandi sól, alveg heiðskír himinn og logn! Það kallaði á aðgerðir á mínum bæ, þar sem ég hafði ekki gert ráð fyrir þessu hitastigi þegar ég pakkaði oní töskur á Íslandi 12. mars síðastliðinn.

Og þar sem neyðin kennir naktri konu að spinna, eða klippa í mínu tilfelli, þá breytti ég druslugallabuxunum sem ég tók með mér frá Íslandi í hámóðins stuttbuxur. Og svo skellti ég mér í ermalausan bol, tók með mér bók, pening, myndavél, húslykla, símann og vatn, arkaði niður á lestarstöð sem flutti mig niður á T-Centralen. Þar fór ég út og gekk í gegnum bæinn og yfir Skeppsholmen-brúnna og endaði á Skeppsholmen þar sem ég breiddi úr sjálfri mér og naut sólarinnar og lífsins.

Góður maður sem ég þekki er alltaf að segja mér að lesa bókina Mátturinn í núinu. En ég held að ég þurfi þess ekki eftir að hafa dvalið hér undanfarnar vikur. Því ég hef komist að því að mátturinn er í núinu. Að geta notið augnabliksins er hæfileiki sem þarf að þróa með sér. Ég veit ekkert um það hvað morgundagurinn ber í skauti sér (þó ég reyni að hafa MIKIL áhrif á það með endalausum planeringum og skipulagningum), en ég veit hvað er NÚNA. Ef ég leyfi mér að njóta þess að vera til NÚNA en ekki á næsta ári þegar ég er búin að öllu og engu, þá verð ég hamingjusamari, ánægðari og betur fær um að gefa af mér til þeirra sem reiða sig á mig. 

Þess vegna hef ég líka notið þess svo innilega að vera hérna; hvers augnabliks. Auðvitað koma upp þær stundir sem ég sakna fjölskyldunnar minnar alveg hreint ógurlega, en þá hugsa ég bara hvað ég sé heppin að eiga þessa yndislegu fjölskyldu heima. Án þeirra allra væri ég ekki hér. Ég er hér núna og nýt þess og þegar ég kem heim mun ég hugsa til tímans í Svíþjóð með þakklæti fyrir að hafa meðal annars kennt mér að njóta augnabliksins og þakka fyrir að VERA.

En núna er ensku ritgerðinni um það bil lokið og þá er það sú íslenska. Og meðan ég skrifa hana mun ég maula íslenskt NóaSírius páskaegg sem elskurnar mínar sendu mér!

Takk, takk, takk þið öll heima; Heiðar minn, Steinunn, Máni, Sóley, Unnur, Birta, Arna Dís, Mamma, Þórdís, Amma, Ella, Konni, Didda, Jónsi, Sonja, Gummi, Gabríel, Snæfríður, Svanur, Auður, Steinunn tengdó, Palli, Heiðdís, Gísli, Dagur, Heiðar Logi, Birna, Toggi, Katrín Klara.

Munum eftir að þakka og kyssa og knúsa fjölskylduna okkar. 

Ykkar,

Adda  

P.s. bætti við myndum af Stokkhólmi í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyrðu, ég gef bara einhverjum þessa bók!  Ég þarf heldur ekkert á henni að halda eftir þetta maraþon Fnjóskadalsjóga!

Maður þarf svo greinilega að fara taka skeytin fyrir Svíaríki þannig að maður viti hvort maður þarf að taka með sér sólarvörn eða frostvara.

Frétti svo að Jón Ásgeir hefði gleymt þessum bíl þarna í hittefyrra. Þú ættir að heyra í honum, hann gæti selt hann og notað peninginn til að kaupa sér strætókort.

Er að lesa nýjustu Mankell bókina til að koma mér í gírinn en ég ætti nú kannski frekar að lesa Fundið fé eftir vin minn Lapidus, en hún gerist víst í undirheimum Stokkhólms. Wallander býr nefnilega í Ystad sem er víst ekki sami tebolli.

Kv.

Þinn

Heiðar Ingi (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 21:22

2 identicon

Sæl og blessuð

Lét loksins vaða og skrifa þér smá línu er búin að vera fylgjast með blogginu þínu en aldrei látið verða af því að skrifa. Ég sé að þetta er heljarinnar ævintýri og væri alveg til í að vera í þínum sporum. Nú styttist í það að ég byrji í verknámi á þvagfæraskurð en ég er búin með skurðhlutann og á eina vakt eftir í svæfingahlutanum. Þetta er búið að vera mjög fínt. Það væri gaman að hitta þig þegar þú kemur heim kannski á kaffihúsi og þú segir mér ferðasöguna.

Hafðu það gott það sem eftir er

Kv. Hafdís

Hafdís (IP-tala skráð) 12.4.2009 kl. 10:39

3 identicon

Gleðilega páska elsku Adda mín

Kv.Bína

Bína (IP-tala skráð) 12.4.2009 kl. 17:36

4 identicon

Já, það er aldrei að mín er orðin háfleyg :-)

 Verð greinilega að skella mér í svona "leyfi" til að ná svona stóískri....

kv. Sonja

sonja dröfn (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband