Birger Jarlsgatan

Gott fólk.

Það hefur verið sérstakt undanfarna daga að þurfa ekki að mæta í vinnuna upp á Karolinska. En þar sem ég er nú ekki þekkt fyrir að sitja mikið með hendur í skauti og gera EKKERT, fer ég nú ekki að fara að byrja á því núna. Þannig að skipulagða konan frá Íslandi skipuleggur dagana rétt eins og hún væri í vinnu.

"Á ekkert að slaka neitt á eða?", gæti einhver spurt. Jú, jú, það verður gert. En á þriðjudaginn fór ég á fund hjá kennaranum mínum í KI, henni Helen, og við ræddum fram og tilbaka um ritgerðina sem ég þarf að skila henni nk. þriðjudag. Ég fékk grænt ljós á ritgerðarefnið hjá Helen, og einnig grænt ljós á ritgerðarefnið frá íslenska kennaranum mínum fyrir íslensku ritgerðina sem ég þarf að skila þegar ég kem heim.

Eins og allir vita sem þekkja mig, á ég það til að sökkva mér dáldið oní verkefnin sem ég tek mér fyrir hendur.

Þannig að, hvað þessar ritgerðir snertir, þá er ég á bólakafi.

En til að ég nái nú andanum og átti mig á því að það er líf fyrir utan ritgerðarefnið (sem er að sjálfsögðu hvorki það einfaldasta né það þægilegasta, eins og við er að búast af mér), hef ég skipulagt á hverjum degi eitthvað sem krefst þess af mér að fara út af heimilinu.

Í gær, miðvikudag, fór ég á sænskunámskeiðið. Og lærði meðal annars að segja: 77.777 á sænsku. Og af því að ég er alltaf svo góð með mig, þá verð ég að koma því að, að það gat enginn nema ég sagt 77.777 á sænskunámskeiðinu í gær - nema náttúrulega hún Brit, en hún er nú einu sinni kennarinn.

Svo á leið heim af sænskunámskeiðinu gekk framhjá Grand-bíóinu og skellti mér á Slumdog Millionare sem allir í fjölskyldunni minni voru búnir að sjá nema ég.

Í dag hitti ég Lindu, deildarkennarann minn/vinkonu mína, og gengum við núna um nýrri hverfi Stokkhólms. Til dæmis Birger Jarlsgatan þar sem allar dýru búðirnar eru: Louis Vuitton, Chanel, Yves Saint Laurent og þess háttar. Þarna verslar posh-lið Stokkhólms, segir Linda, svo sem krónprinsessan og hennar slekti, stjörnurnar og svo "þetta ríka fólk, sem er ríkt en veit samt ekki neitt, þú veist, er bara ríkt", eins og Linda útskýrði svo skemmtilega.

Dagurinn í dag er að kvöldi kominn; ég er að farast úr harðsperrum eftir víðavangshlaupið í morgun en hugsa samt að ég byrji Föstudaginn langa á öðru hlaupi ... það er nefnilega spáð 17 STIGA HITA OG SÓL alla páskahelgina!

Elskurnar mínar, verið kurteis og góð við hvert annað.

Ykkar,

Adda  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elín Sigríður Grétarsdóttir

(allt nema = það er nefnilega spáð 17 STIGA HITA OG SÓL alla páskahelgina!)

Elín Sigríður Grétarsdóttir, 9.4.2009 kl. 22:23

2 identicon

Já, sæll. Sól og hiti. Alveg til í það! Annars bara smá forvitni hvað ertu að hlaupa langt og lengi í víðavangshlaupinu??? Er að fara í sprautur 24. og krossa fingur um að ég geti farið að hlaupa eftir það.... Annars voru tvíburasystur hjá mér áðan, fengu páskamat og buðu Gabríel að gista, svo gista þær hjá okkur annað kvöld - agalegt stuð.

 kv. í bili, Sonja

sonja dröfn (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband