Kungliga Slottet

Morgunsólin vakti mig í morgun klukkan níu. Í allan heila dag hefur verið alveg yndislegt veður, enda fullt af fólki í á ferð, kaffi- og veitingahúsin búin að setja stóla og borð út og Åhléns búið að stilla 24 sólgleraugnastöndum fremst í búðina.

Ég átti frí í dag og ákvað að nýta þetta góða veður og fríið til að túristast dáldið. Klæddi mig í kaupstaðarföt og fór með lestinni niður á T-Centralen og gekk þaðan niður í hið dásamlega Gamla Stan. Á leiðinni þangað gekk ég meðal annars framhjá Systembolaget sem er Ríkið þeirra hér í Svíþjóð. Og það var röð fyrir utan og þurfti að hleypa inn í hollum! Er ekki örugglega fimmtudagur í dag? Mér skilst reyndar á hérlendum að hér sé töluvert um drykkjuvandamál sem margir vilja meina að sé því að kenna að áfengi sé eingöngu selt í Systembolaget. Hummm, eitthvað kannast maður við að hafa heyrt svipaða skýringu heima á Íslandi.

Kungliga Slottet er staðsett eiginlega um leið og komið er inn í Gamla Stan. Það er hinn opinberi dvalarstaður konungs og fjölskyldu hans. Það var ansi áhugavert að ganga þarna um og skoða hin konunglegu hertygi, hina konunglegu vagna og hinar konunglegu gersemar. Sænska konungríkið á langa sögu, eða síðan á 15. öld, skilst mér. Þannig að sögur fortíðarinnar bókstaflega leka af veggjunum, sýningargripum og innanstokksmunum. Sá til dæmis brynjur sem ég get ómögulega skilið að nokkur lifandi maður hafi getað hreyft sig nokkurn skapaðan hlut í og einnig brúðarkjól einnar drottningarinnar sem kallaði á svo þröngt korselett innanundir að hún hefur örugglega ekki getað andað blessunin.

Öll klæðin sem eru þarna til sýnis eru afar íburðarmikil og gulli ofin. Þannig að það skýtur frekar skökku við þegar allt í einu dúkkar upp kjóllinn sem Viktoría krónprinsessa var í á 18 ára afmælisdaginn (þegar hún varð 18 ára, varð hún einnig staðgengill konungs og ber því miklar konunglegar skyldur). Þessi kjóll er bara blár (kóngablár, auðvitað), nær upp í háls, með yfirdekktum tölum að aftan og á ermunum. Agalega einfaldur eitthvað, svona miðað við allt gullið og bryddingarnar. En mjög fallegur engu að síður.

Það eru varðmenn um alla höllina sem eru hermenn úr sænska hernum. Svo eru fallbyssur í portinu fyrir utan Representationsvåningarna, sem væntanlega er skotið af við hátíðleg tilefni. Það er einmitt lok fyrir fallbyssuhlaupinu sem að sjálfsögðu er gult og blátt...

Eftir að hafa skoðað höllina gekk ég um Gamla Stan, fór í allskonar hliðargötur og endaði svo á veitingahúsi þar sem ég tyllti mér niður í sólinni og fékk mér gómsæta laxasúpu með graslauk. Ægilega góð! 

Áður en ég fór heim, rakst ég á búð sem selur eiginlega eingöngu Cheap Monday gallabuxur af öllum stærðum og gerðum og verslaði eitt stykki fyrir einkasoninn.

Njótum dagsins, elskurnar, því við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sínu.  

Ykkar,

Adda 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Adda mín

Frábært að lesa bloggið þitt.

Ég byrja vinnudaginn alltaf á að fá mér kaffi og kíkja inn á síðuna þína (úpps vonandi ekki margir Símamenn að lesa þetta).

Hugsa til þín og ævintýranna á hverjum degi.

Kveðja frá nafla alheimsins (Kópavogi)

ps. Gísli sagði mér að segja þetta með naflan en við vitum að sjálfsögðu miklu betur hvar hann er hehe

Heiðdís Björnsdóttir (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 20:32

2 identicon

Sæl vertu !

Já, það er sko aldeilis hægt að skoða sig þarna um. Ég skil reyndar ekkert í því að þú skulir ekki vera búin að missa þig í sænsku hönnunarbúðunum - ég væri búin að því :-) Ætli það sé Lysgaard og Dranella þarna... Þá yrði ég víst að kíkja á þig ;-)

kv. úr slabbbænum, Sonja

sonja dröfn (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 21:11

3 identicon

Páskakveðja til þín Adda mín, ég er nefnilega farin vestur á Bildó og er alveg tölvusambandslaus þar í heila viku. Hafðu það gott áfram og njóttu augnabliksins.

kv. Gurrý

Gurrý (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband