Jungfrudansen og Solna Stad

Elsku vinir, ættingjar, maðurinn minn og börnin mín öll!

Takk fyrir öll hlýju orðin frá ykkur. Mér finnst ég svo lánsöm að eiga svona yndislegt samferðafólk í lífinu.

Ég komst að því í morgun eftir víðavangshlaup dagsins að það er sennilega komin tími til að fjárfesta í nýjum hlaupaskóm. Eins yndislegt og það er að hlaupa hér á allskonar göngustígum, stéttum og götum, fer það ekki alveg eins vel með skóna og að hlaupa á hamstrabeltinu í Laugum. Reyndar ætlaði ég að prófa enn nýja hlaupaleið í morgun en hljóp aðeins á mig, ef svo má segja. Endaði semsagt við mörk Solna og Sundbyberg sem er frekar langt og var næstum villt!

En ég hljóp framhjá Jungfrudansen og þar sá ég einmitt draumahúsið: gult með hvítum körmum, á tveim hæðum og með risi, með tvöfaldri útihurð, risastórri verönd og bílskúr og gestahúsi. Svo sá ég ekki betur en að það væri sundlaug í garðinum. Og svo stendur það við ströndina. Þið vitið, svona ekta sænskt-Astrid-Lindgren hús. Bara dásamlegt.

Í dag hef ég verið að gera verkefni hér í heima í Emmylundsv. 3, og þvo þvott. Það þarf víst líka að gera það þó það séu nú frekar aumingjalegir þvottar miðað við hvað ég er vön. Mér tókst reyndar að læsa þvottinn minn inni í þvottaherberginu eða réttara sagt í þvottasalnum, því hér samanstendur þvottasalurinn af 15 stórvirkum vinnuvélum sem sjá um að þvo þvottinn af stúdentunum hér. En að sjálfsögðu er kerfi á þessu eins og öllu í Svíþjóð.

1. Það þarf að panta þvottavél með a.m.k. viku fyrirvara.

2. Maður kemst aðeins inn í þvottasalinn (sem er alltaf læstur) með lyklinum sínum ef maður á pantaða þvottavél.

3. Maður kemst aðeins inn í þvottasalinn í 15 mínútur eftir að áætluðum þvottatíma lýkur.

Og ég kom semsagt sirka 17 mínútum eftir. Þannig að ég beið í 20 mínútur eftir að einhver ætti erindi í þvottaherbergið. En nú er nákvæmlega allt hreint hjá mér, þar sem ég er líka búin að þrífa alla þessa 18 fm. Sem er líka frekar aumingjalegt miðað við 200 fm sem ég þríf heima hjá mér á Íslandi.

Í vinnunni í gær hélt ég áfram æfingunni að því að verða expert í nálaruppsetningum á sjúklingum og hjúkrunarfræðingum. Og enn gekk vel...sjö-níu-þrettán.

Einnig átti ég langt samtal í gær við yfirlækni Kvinnokliniken (= kvennadeildarinnar) K 67. Hún var afar áhugasöm um ástandið á Íslandi rétt eins og danski skurðlæknirinn um daginn. Og rétt eins og danski, flínki skurðlæknirinn sýndi hún tónlistarhúsinu einlægan áhuga. Og sagði á engilsaxnesku:

The Concert Hall is a building that could play an important part in uniting the Icelandic people. Instead of being a sad monument of the past, it could be an uplifting sign of the future.

Ég hafði engin svör við þessu, og sagði henni að svo gæti alveg verið. En ég teldi nú þó að bjartsýnin og það náttúrulega eðli okkar Íslendinga í gegnum aldirnar að lifa af ótrúlegustu hörmungar, væri kannski frekar það sem kæmi Íslendingum í gegnum þetta. Að hafa heilsu, eiga fjölskyldu og vini og að geta borgað skuldir sínar um hver mánaðamót stæði sennilega hjarta fólki nær en hvort það yrði byggt tónlistarhús eða ekki.

Mér fannst líka áhugavert að báðir þessir læknar sem ég hef átt nokkuð löng samtöl við skyldu sýna þessu tónlistarhúsi svo mikinn áhuga. Hvorugur hafði heyrt minnst á milljónirnar sem hafa farið í fyrirhugað Hátæknisjúkrahús...

Eftir að vinnunni lauk í gær fór ég á bókasafnið hér í skólanum, Karolinska Institutet, og prentaði út nokkrar greinar sem ég þarf fyrir verkefnin mín. Bókasafnið er RISAstórt, og í því eru eingöngu bækur og blöð um hjúkrun, læknisfræði og tannlækningar. MJÖG skemmtilegt sem sagt, og alveg hægt að gleyma sér þar. 

Hlýjar kveðjur úr sænska vorinu sem lætur bíða eftir sér! Verið hlý hvort við annað, og munum eftir að þakka fyrir allt sem við höfum.

Ykkar,

Adda 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elín Sigríður Grétarsdóttir

Elín Sigríður Grétarsdóttir, 29.3.2009 kl. 10:49

2 identicon

Já, er ekki um að gera að versla sér nýja skó í Svíþjóð? Það er nú ekki ónýtt að geta sagt að verið sé að hlaupa á sænskum skóm :-) Ertu búin að bjóða í draumahúsið??? Mér sýnist sælan vera þvílík að Heiðar verður að fara finna sér góða bókútgáfu til að munstra sig inn í þarna... Ætli sé ekki pláss hjá Mankell???

Kv. Sonja

sonja dröfn (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 16:38

3 identicon

Sæl hlaupakona Svíþjóðar.

Gaman að heyra að allt gengur vel. þetta er eitthvað sem á við þig reglan á öllu þarna, við mundum vera góðar saman en ég er nú samt ekki viss um að ég gæti fylgt þér eftir á hlaupaskónum . Annars allt gott að frétta fá okkur hér í snjó og leiðinda veðri..

Hafðu það gott og gættu þín á að rata réttu leiðina heim

kveða

Didda

Didda (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband