26.4.2009 | 14:17
Heima
Kæru vinir.
Það er aldeilis gott að vera komin heim. Veðrið er bara eins og það er (það er sko 18°C hiti í Stokkhólmi í dag), en ég er bara með fullt af sól og blíðu hér heima hjá mér þó hitastigið á mælinum hjá mér segi að fyrir utan húsið mitt sé 9°C hiti og svo er smárigning.
Ég er svo heppin að þjóna aðeins í Laugarneskirkju; sé um að skúra þessa fallegu kirkju. Heiðar minn tók að sér að þrífa í á meðan ég var í Svíþjóð og stóð sig svona líka ljómandi vel - allavega fékk hann voða fína umsögn frá yfirmönnunum í kirkjunni. Þegar ég fór að skúra um daginn tók ég eftir skemmtilegu skilti fyrir utan fiskbúðina okkar á Sundlaugaveginum:
Nýjar gellur
Steini kominn
Þetta er bara frábært. Ótrúlega notalegt og heimilislegt þetta hverfi sem við búum í.
Það virkilega hlýjar að innan að hitta fjölskylduna, vinina og kunnugleg andlit aftur. Og minnir mig enn og aftur á hve ég er heppin kona. Að ég tali nú ekki um að hafa farið þarna út og lært enn betur að njóta alls sem ég á.
Sumarið er að koma á Íslandi, grilllykt í loftinu og erfitt að fá krakkana til að koma inn á kvöldin. Hér á rólónum á milli raðhúsanna er alltaf mikil einnar-krónu stemmning á kvöldin og það besta er, að allir fá að vera með.
Ég er dottin aftur í stórþvotta í fína, fína þvottahúsinu mínu; þarf ekki að panta tíma eins og í Stokkhólmi og búin að þrífa alla 200 fm einu sinni síðan ég kom. Þetta er heimilið mitt og það er gott að eiga heimili til að þrífa.
Eins og allir vita voru kosningar á Íslandi í gær, og það eina sem ég bið nýja valdhafa að hafa í huga er að vanda sig eins vel og þeir geta í öllum þeim verkefnum sem þau þurfa að takast á við.
Sama ætla ég að gera (það er ekki hægt að ætlast til að aðrir breytist ef maður gerir ekki sömu kröfur á sjálfan sig), ég ætla leggja mig fram um að vanda mig eins vel og ég get í þeim verkefnum sem bíða mín. Á hvaða vettvangi sem er.
Ykkar,
Adda
Athugasemdir
Dásamlegt!
Ef þú hefur ekkert að gera máttu koma og þrífa hjá mér :-) Það eru bara 100fm...
kv. Sonja
sonja dröfn (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 18:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.