Í dag.

Kæru vinir.

Mér finnst algjörlega frábært að þrátt fyrir að aldurinn færist yfir, hætti maður aldrei að læra. Eini munurinn er kannski sá að það verður erfiðara að tileinka sér nýjan lærdóm. Oft er svo auðvelt að festast í viðjum vanans; gera hlutina bara vegna þess að þeir hafa alltaf verið gerðir eða koma fram við ákveðna einstaklinga vegna þess að maður hefur alltaf komið fram við þá á ákveðinn hátt. En það sem er svo frábært er að það er alltaf hægt að breyta til betri vegar, snúa við blaðinu.

Einhverju sinni var sagt við mig að enginn væri ómissandi. En ég er nú ekki sammála því. Allir sem ég hef umgengist í gegnum tíðina hafa haft mismunandi áhrif á mig og mitt líf. Ég hefði ekki viljað missa af einum einasta sem ég hef hitt. Sumir hafa haft meiri áhrif á mig en aðrir:

 - Guð

 - Heiðar minn

 - Mamma

 - Börnin mín

 - Adda amma

Hvað það er sem veldur því að sumir hafa meiri áhrif á mig en aðrir, veit ég ekki. Sennilega hafa kærleikur, traust og einlæg samskipti samt mikið með það að gera.

Ég bjóst aldrei við að hitta í eigin persónu John Taylor, bassaleikara Duran Duran. En hann var mitt átrúnaðargoð þegar ég var unglingur og betrekkti ég veggina í herberginu mínu með plakötum af honum og félögum hans sem ég klippti úr Bravo blöðum. En, viti menn; ég stóð FREMST við sviðið beint fyrir framan J.Taylor á tónleikunum sem þeir héldu í Egilshöll. Ég get nú reyndar ekki sagt að persóna J.Taylor hafi haft sérstök áhrif á mig; það sem var áhrifameira fyrir mig var sú hressandi upplifun þegar hin 33 ára gamla Adda hitti fyrir hina 13 ára gömlu Öddu á tónleikunum með Duran Duran. Þegar sveitastelpan var 13 og betrekkti veggina myndum af átrúnaðargoðunum hafði hún ekki hugmynd um hvað framtíðin bæri í skauti sér. Sem betur fer.

En ég var samt sem áður viss um að ég skipti máli. Á erfiðu tímabili reyndi ég þó mitt besta til að hverfa inn í sjálfa mig, en það tímabil gekk yfir og ég lærði af þeirri reynslu eins og öðrum. Það er nefnilega þannig að öll sú reynsla sem við göngum í gegnum gerir okkur að þeim einstaklingum sem við erum í dag.

Eitt af því sem ég lærði var að það er alltaf til fólk sem líður þannig að það telur sig ekki skipta neinu máli. Það trúir því að tilvera þeirra skipti ekki máli. En það er ekki þannig. Við erum öll jafndýrmæt.

Í mínum huga skiptir minna máli í lok dagsins hve mikið við höfum grætt af peningum, hve marga km við höfum hlaupið, hve margar þvottavélar við höfum þvegið, hve vel við höfum þrifið húsið okkar o.s.frv., heldur skiptir öllu máli hvernig við höfum komið fram við samferðamenn okkar. Hvaða minningar við skiljum eftir hjá þeim sem við umgöngumst.

Ykkar,

Adda.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hugsi...

sonja dröfn (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 22:10

2 identicon

Sæl Adda mín,

ég leyfi mér af kíkja hér á bloggið þitt af og til og hef sérstaklega gaman af þar sem þú ert afbragðsgóður penni.  Það var hreint yndislegt að lesa færsluna þína hér fyrir ofan og ég hreinlega varð að kvitta fyrir mig að þessu sinni. 

Ég er að vona að stelpurnar nái að hittast í sumar en við verðum öll í bænum seinni hlutann í júlí.

Kærar kveðjur til ykkar allra, Iðunn

Iðunn Geirsdóttir (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 15:47

3 identicon

Ég er svo hjartanlega sammála þér, ég hefði bara aldrei getað orðað þetta svona fallega. Falleg orð frá fallegri konu.

Kær kveðja, Elsa Dögg

Elsa Dögg (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 18:00

4 Smámynd: Elín Sigríður Grétarsdóttir

Elín Sigríður Grétarsdóttir, 8.6.2009 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband