Drottningholm

Kæru vinir.

Síðustu dagar hafa farið í ritgerðarvinnu. Sem hefur bara gengið ágætlega, held ég. Þar sem ég er frekar mikið í mínum eigin, litla heimi þegar ég er á svona bólakafi í ritgerðum (dreymir meira að segja að ég sé sjálf í sporum viðfangsefnisins ... frekar langt gengið, eller hur), spegla sjálfa mig ekki mjög mikið í öðrum - bara ekkert, og er því já, það má segja að ég sé í sjálfskipaðri einangrun. Þannig að á annan dag Páska ákvað ég að hitta fólk. Og ekki bara eitthvað fólk, nei, nú skyldi bara farið í heimsókn til Carls XVI Gustavs og Silviu, Victoriu og Madeleine og sæta bróður þeirra Carls Philips og svo má ekki gleyma tengdasyninum tilvonandi, Daniel.

Það er reyndar verið að slá því hér upp í velmeinandi dagblöðum eins og Metro og Expressen að Carl Philip sé að slá sér upp með einhverri idol-stjörnu. Nett hneyksli. En þetta segi ég nú bara svo makalausu vinkonur mínar fari ekki að halda að ég hafi beðið um símanúmerið hans fyrir þær - þar sem ég var nú einu sinni á leið heim til hans.

Svo að ég fór í nýja, fína, sumarpilsið mitt, fína peysu og spariskó og hélt af stað. Fyrst var það Tunnelbana á T-Centralen, svo Pendeltåg til Brommaplan og þaðan með Buss bara næstum heim að dyrum á Drottningholm. Þar sem þau búa, blessað fólkið, í alveg hreint agalega stóru húsi. Ekki myndi ég vilja þurfa að þrífa þar; nei, takk, less is more.

Það voru reyndar dáldið margir að fara í heimsókn um leið og ég.

En þarna búa þau og á milli 12 og 15:30 mega allir koma í heimsókn sem vilja. Þannig að ég fór og bjóst við að fá kannski Kanelbuller og kannski smá-saft tillsammans. En nei. Það sást hvorki tangur né tetur af fjölskyldunni og væri ég ekki hissa þó þau hefðu bara brugðið sér af bæ, rétt sem snöggvast, til að losna við að hitta allt þetta fólk sem vildi koma í heimsókn.

Ég fór inn í höllina sem er MJÖG falleg. Ég hef áður minnst á Jane Austin-stemmningu í öðrum húsum hér í borg, en Drottningholm slær öllu við. Þar er til dæmis salur sem hefur örugglega verið brúkaður sem danssalur hér áður fyrr. Þegar ég stóð þar inni var ekki erfitt að sjá fyrir sér svona senu:

Það er árið 1789 og í höllinni er verið að halda kynningarveislu fyrir hennar hátign prinsessuna, hertogaynju af Hälsingland. Um allt eru þjónar með hvítar hárkollur, konur í kríalínkjólum sem eru svo þröngir að þeim liggur við yfirliði, karlar með bumbur, hárkollur, í hvítum sokkum og hnébuxum. Og svo kallar einn þjónninn: "Hans hátign; Adolf Fredrik og drottning hans, Lovisa Ulrika af Prússlandi!" Og svo sigla þau inn í salinn þar sem gestirnir á dansleiknum dansa.

Bara dásamlegt. Svo er það garðurinn! Hann er RISAstór og dásamlega fallegur. Með gosbrunnum, fallegum trjám og jurtum. Það var mjög gott veður þegar ég var þarna á mánudaginn, en ég er viss um að það er yndislegt að koma hingað um hásumar þegar allt er í blóma.

En eins og áður sagði var fjölskyldan ekki viðlátin, en hinir konunglegu varðmenn sáu til þess að enginn kæmi of nálægt þeirra húsakynnum. Það er nefnilega bara lítill hluti af höllinni sem er til sýnis og sem hefur verið viðhaldið að mestu leyti í upprunalegu ástandi. Sá hluti hallarinnar þar sem fjölskyldan hefur sitt prívat-heimili hefur verið endurgerður og er að sjálfsögðu ekki til sýnis.

Ég hætti mér einu sinni einu skrefi of nálægt hliðinu þar sem kungliga familjen ekur bílunum sínum í gegn; áttaði mig samt engan veginn á ósýnilegu línunni í mölinni sem ég átti örugglega að sjá! Það var eins og við manninn mælt: ungur, konunglegur varðmaður (þeir eru semsé hermenn í sænska hernum) kom með byssuna sína að mér og sagði frekar hranalega: "Respektera! Respektera! Respektera området!" Þannig að íslenska konan í fína sumarpilsinu sínu hrökklaðist yfir ósýnilegu línuna!

Ég gekk svo um allt svæðið (sem var ekki girt af, það er) í blíðunni. Þetta er alveg yndislegur staður og mæli ég með því að fara þangað. Það var miklu meiri upplifun að koma til Drottningholm heldur en Kungliga Slottet í Gamla Stan. Drottningholm er náttúrlega ekki oní bæ, þar var mikið af Svíum með kanelbullar í körfum og saft á brúsa, en túristar í miklum minnihluta. Svo er svo mikil kyrrð þar og einstaklega fallegt allt umhverfið. Mæli með því.

Í gær hitti ég kennarann minn í KI, hana Helen. Alveg einstakt að eiga samskipti við kennara og starfsfólk hér á Karolinska Institutet og Karolinska Universtitetssjukhus. Kannski hef ég bara verið einstaklega heppin, en allir eru svo kurteisir og vilja svo innilega vera mér innanhandar. Sama með Helen. Ég hef lært heilmikið á þessu tveggja vikna Literature Review námskeiði, og hlakka til að nýta mér þessa nýju þekkingu áfram í náminu mínu.

Síðasti sænskutíminn var í kvöld. Það var jafndásamlega gaman og alltaf. Vissuð þið að Svíar fundu upp rennilásinn = dragkedja og píptækið? Þetta námskeið hefur hjálpað mér mikið í sænskunni + líka verið mjög skemmtilegt.

Veðrið er alveg með ólíkindum, og þarf ég að beita sjálfa mig hörku til að sitja hér við tölvuna og vinna á meðan sólin gjörsamlega grillar mig! 

Njótið vorsins, elskurnar, og lífsins.

Ykkar,

Adda


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

...og þau heppin að hafa fengið þig sem nema Gangi þér vel með ritgerðarvinnuna.

Kveðja Bína

Bína (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 22:07

2 identicon

Skemmtileg skrif hjá þér, elskan!

Ég er farin að sjá fyrir mér ferðabókaseríu með þér. Svona Adda alein í útlöndum sería. Þar sem að þú dvelur svona amk 5 vikur í hverju landi og skrifar það sem á daga þína drífur með sérstaka áherslu á kóngaslekt.

Það yrði nú ekkert vandamál fyrir að skrifa svona bækur en ég hef meiri áhyggjur af því að ég ætti erfitt með að sitja heima á meðan.

Við förum betur yfir þetta þegar ég kem...ekki á morgun heldur hinn.....

Kv.

Þinn 

Heiðar Ingi (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 22:20

3 identicon

Já, ég er sammála mági mínum. Það er komin rithöfundur í fjölskylduna. Nú verður það ekki einhver skáldsagnapersóna sem ber líf sitt á borð fyrir okkur, Heldur ALVÖRU Adda (sem að sjálfsögðu á og hefur lesið, allar Öddubækurnar). Adda í Svíþjóð, Adda í Finnlandi, Adda í Færeyjum o.s.fr.v, að sjálfsögðu lögð áhersla á norðurlöndin til að byrja með... Líst þér ekki vel á þetta???

 kv. Sonja

p.s. ég gleymdi nú að spyrja mág minn þegar hann var hér um daginn, en fær hann gistingu í slotinu hjá þér? :-)

sonja dröfn (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 18:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband