12.4.2009 | 20:43
Glad Påsk!
Kæru vinir!
Gleðilega páska og takk fyrir allar góðu kveðjurnar!
Ég vaknaði við sólina í morgun fyrir allar aldir, og þar sem það var algjörlega ómögulegt að halda áfram að sofa og líka ómögulegt að vera hérna inni í herberginu mínu góða fyrir hita, ákvað ég að réttast væri að fara út í sólina. Leiðinni var heitið í páskamessu í Betlehemskyrkan. Það var mjög notalegt, og sagði presturinn meðal annars skemmtilega sögu úr fjölskyldu sinni sem hann tengdi við frásögn Biblíunnar af upprisunni og átti sér stað fyrir sirka fimm árum:
Börnin hans (prestsins) voru mikið búin að suða um gæludýr, en þar sem hann (presturinn) er með ofnæmi fyrir köttum og hundum, ákvað fjölskyldan að fá sér naggrís sem þau kölluðu Ebbu. Hún var mikill gleðigjafi bæði hjá fjölskyldunni og nágrönnunum. En einn daginn týndist Ebba. Allir voru kallaðir til að leita að henni, vinir, ættingjar og nágrannarnir. En ekki fannst greyið. En á ÞRIÐJA degi eftir að Ebba týndist, fer presturinn að huga að rósarunna sem þau hjónin voru með í garðinum hjá sér. Þá verður hann var við einhverja hreyfingu í moldinni, og þar var þá fröken Ebba að rísa upp á þriðja degi eftir að hún týndist! Og svo líkti presturinn gleði barnanna við að sjá Ebbu aftur við gleði kvennanna þriggja sem sáu Jesú fyrst eftir upprisuna.
Börn komu meira við sögu í þessari messu, því í lok hennar gáfu börnin öllum í kirkjunni páskaliljur sem ég er einmitt með í vasa í glugganum mínum núna.
Eftir messuna settist ég út á uppáhaldskaffihúsið mitt, EspressoHouse og lamaðist úr hita, en fannst náttúrlega nauðsynlegt að fá mér kaffi þrátt fyrir hitann!
Ég var búin að ákveða að kaupa mér kjól í dag sem ég er búin að horfa á í búðarglugganum síðan ég kom. En svo var bara þessi blessaði kjóll eingöngu fallegur í búðarglugganum - ekki á manneskju = mér. Fékk mér bara ægilega sætt sumarpils í staðinn á 98,- sænskar í sænsku súperbúðinni; Hennes og Mauritz.
Takk fyrir páskaeggið! Ég mun nú ekki hafa það af að klára það í dag! En málshátturinn var:
Bragð er að þá barnið finnur.
Það er dáldið spes að hér er ekkert eins og það hafi verið páskadagur í dag. Allar búðir opnar (nema Systembolaget) og bara eins og það sé venjulegur sunnudagur. Það var reyndar óvenjulega mikið af fjölskyldufólki að spássera. Sennilega hefur aðskilnaður ríkis og kirkju hér í Svíþjóð um áramótin 2000 eitthvað með þetta að gera. Svo má heldur ekki gleyma að hér býr fólk sem kemur gjörsamlega allsstaðar að úr heiminum, með fjölbreytta menningu, gildi og trú sem bakgrunn. Það hefur líka mikil áhrif, hugsa ég.
En fyrir ykkur sem eruð að missa ykkur yfir Melodifestivalen er best að benda ykkur á þau tíðindi sem ég las í gær, að samkvæmt nýjustu tölum muni Finnar vinna fyrra undanúrslitakvöldið, SVÍAR verða í 2. og Ísland í 3ja. Þeir sem eru gjörsamlega að missa það yfir spenningi að heyra og sjá sænska framlagið get ég bent á www.svt.se og svo Melodifestivalen. Svíar eru allavega að missa sig yfir þessu. Fröken Charlotte Perelli og Malena Ekman (sem syngur sænska lagið) eru agalega miklar vinkonur og er dáldið skemmtilegt viðtal á þessari heimasíðu sem Perelli tók við Malenu daginn eftir að hún vann innanlandskeppnina. Þeir kunna þetta, Svíarnir!
Og fyrir ykkur hin sem eruð að missa ykkur yfir því hvort það verði áfram gott veður hér, get ég sagt ykkur að svo sé. Þannig að ég grillast á morgnana og læri á kvöldin! Enda langt komin með ritgerðarnar, þannig að þetta er fínt prógramm!
Njótið lífsins!
Ykkar,
Adda
Athugasemdir
Já, einmitt, hleypur nú af þér eggið á "nótæm" - ekki ónýtt að fá eitt stykki nóa siríus egg á þessum tímum :-)
Annars máttu alveg taka við eins og einni ritgerð frá mér ef þér fer að leiðast... Eða ef það skyldi rigna...
Hafðu það sem best :-) kv. Sonja
sonja dröfn (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 20:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.