Vasa Parken

Elsku vinir!

Nei, ég er ekki á leið heim alveg strax! Verknámið mitt var í 3 vikur og svo er ég núna í rúmlega 2ja vikna námskeiði hjá Karolinska Institutet - sem er bóklegt. Einnig þarf ég að gera ritgerð tengda verknáminu sem ég þarf að skila til HÍ. Þannig að ævintýrum mínum hér og víðavangshlaupum er hvergi nærri lokið.

Í dag var ég til dæmis á mjög áhugaverðri ráðstefnu í KI um mismunandi viðhorf milli menningarheima sem snúa að heilbrigði, heilsu og sjúkdómum. Einnig hittumst við skiptinemarnir í hjúkrun = sjuksköterskorutbytestudenter (smart...) og bárum saman kennsluna í hjúkrun milli landa og mismunandi menningu. Það var til dæmis mjög gaman að heyra frá tveim hjúkrunarnemum sem koma frá Zambíu - "The Real Africa", eins og þau sögðu sjálf!

Það var dáldið skemmtilegt að Svíar virtust koma okkur öllum eins fyrir sjónir, þó við værum frá: Íslandi, Írlandi, Englandi, Ítalíu, Zambíu, Finnlandi og Noregi:

kurteisir - vinalegir - með mikið af óskráðum reglum - lifa reglubundnu lífi - mjög stundvísir.

Prófessorinn sem stýrði umræðunum kom svo með nokkra góða punkta um "þú veist þú ert Svíi þegar...":

a) þú ert mjög alvarlegur og fullur virðingar þegar þú gengur inn í IKEA verslanir sem eru ekki í Svíþjóð.

b) þú ELSKAR Melodifestivalen = Eurovision Song Contest.

c) þú getur ekki gengið yfir götu á rauðu ljósi, jafnvel þó það séu nákvæmlega engir bílar sjáanlegir.

d) þér líður mjög illa yfir að henda rusli sem er mögulega hægt að endurvinna, í venjulegt, óendurvinnanlegt rusl.

e) tré verða ekki að skógi nema þú sért +20 mín að keyra í gegnum hann.

f) þú færð samviskubit ef þú ert ekki úti þegar sólin skín.

g) þú átt sumarhús sem er ekki með rennandi vatni, rafmagni, salerni né neinum öðrum nútímaþægindum og skilur ekkert í af hverju fólk vill ekki heimsækja þig þangað.

h) þegar þú ferð út að borða með einhverjum; hvort sem það er stefnumót, með vinnufélaga eða vini/vinkonu, er reikningnum alltaf skipt nákvæmlega jafnt - uppá krónu.   

Annars verð ég að deila enn einu jákvæða viðmótinu sem ég hef fundið fyrir hér:

Ég tók það stóra skref um daginn að kaupa mér gallabuxur. Ekki bara hvaða gallabuxur sem er, heldur þið vitið svona niðurmjóar, "slim" eða "skinny" snið. Athugið: ég hef ALDREI átt svoleiðis gallabuxur. En allavega, svo á föstudaginn ákvað ég að vígja nýju pæjubuxurnar. En þegar ég er komin í þær og komin hálfa leið í vinnuna tek ég eftir að saumurinn á annarri skálminni innanverðri er snúinn. Þið vitið, þannig að saumurinn endar framan á buxunum einhvern veginn í staðinn fyrir að vera bara beinn niður. Þannig að ég kem heim úr vinnunni, frekar deprimeruð yfir að eiga bara hálf-hallærislegar pæjubuxur. En ákveð samt að prófa að fara með þær aftur í búðina. Við erum að tala um að ég keypti þær í RISAstóru vöruhúsi sem heitir Åhléns og er staðsett oní bæ. Þetta er vöruhús með voða mikið af merkjavöru og fíneríi; t.d. Calvin Klein, Filippa K, Diesel, DKNY, InWear o.fl., o.fl. Pæjubuxurnar eru nú reyndar ekki með svona fínt merki límt á sig, bara gott sænskt: .att.

En áfram með söguna: ég fór svo í búðina áður en ég fór í vinnuna á laugardaginn, alveg með hjartað í buxunum. Ég var sko búin að vera í buxunum í einn dag, búin að taka náttúrlega af þeim öll merki OG búin að þvo þær einu sinni. Leggið nú höfuðið í bleyti og hugsið vel og vandlega um hvernig mér yrði tekið í íslenskri verslun? 

En viti menn! "Já, hvað segirðu! Heyrðu þú færð bara nýjar! Viltu eins og þessar eða viltu fá peninginn tilbaka eða viltu skoða þig um í búðinni?"

Hvað getur maður sagt? Jú, ég á agalega skvísulegar pæjubuxur!

Njótið kvöldsins, næturinnar og morgundagsins; hér er komið sumar á íslenskan mælikvarða! Underbart!

Ykkar,

Adda

 

p.s. Eitt gullkorn sem hefur reynst mér vel:

Við ráðum engu um hvaða spil lífið lætur okkur í hendur, en við ráðum öllu um hvernig við spilum úr þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jæja, þá veit ég það. Þegar þú sérð mig henda rusli, sem væru mögulega endurnýtanlegt og rífur það af mér til að nýta... Eða hættir að fara á Illugastaði af því þar er of mikið af þægindum... Þá ertu semsé orðin Svíi og bara tímaspursmál hvenær flutningur á sér stað :-)

 kv. Sonja

p.s. allt annað á þegar við...

sonja dröfn (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 08:35

2 identicon

Hæ hæ erum komin norður yfir heiðar í páskafrí og áterí:-) Hafðu það gott Adda mín yfir páskana og njóttu vel.  Á að fá sér sænskt páskaegg?  Hlakka til að sjá þig þegar þú kemur heim í nýju pæjubuxunum, þú ert reyndar alltaf pæja

Páskakveðja Bína

Bína (IP-tala skráð) 8.4.2009 kl. 12:19

3 identicon

Heldurðu að við sem heima sitjum höfum ekki græjað páskaegg á frúnna til Sverige... Við treystum svo ekki Svíum til þess að framleiða fyrir hana Öddu okkar almennileg egg amk ekki egg sem bragðast líkt og þau frá Nóa Síríus. Ég meina þeir eru kannski góðir að bíða í biðröðum og hlusta á Diggi lei Diggi ló en ég treysti þeim ekki í eggjunum.

Ég tek svo með mér þröngu bleiku buxurnar út sem að ég hef ekki komist í 20 ár og reyni að skipta þeim eins og þær hefðu verið keyptar í gær. Miðað við lýsingarnar þá ætti það ekki að vera neitt mál. Ég fæ mér þá bara buxur úr endurunnum mjólkurfernum í staðinn.

Við erum svo annars komin í sveitasæluna, stelpurnar úti að leika sér í snjónum, sýngjandi kátar og ég að fara taka við húsvarðardjobbinu.

Hilsen fra Illugastöðum,

Þinn

Heiðar Ingi (IP-tala skráð) 8.4.2009 kl. 14:57

4 identicon

...life´s a box of chocolate....

Þórdís Ósk (IP-tala skráð) 8.4.2009 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband