26.3.2009 | 21:55
Vastra Skogen til T-Centralen til Flemingsberg
Þetta er leiðin sem ég fer í vinnuna og í skólann í KI-Huddinge. Og svo sömu leið tilbaka. Nema þegar ég fer úr í Fridhemspladsen til að fara í DagLivs og kaupa mér í matinn.
Mjög þægilegt fyrirkomulag, þessar lestar. Aldrei þarf að hafa áhyggjur af bílastæðum, stöðumælum eða hvort nóg bensín sé á farartækinu. Lestarnar halda bara einhvern veginn alltaf sínu striki. Fyrir svo utan hvað það er notalegt að lesa í tæpan klukkutíma í lestinni fyrir og eftir vinnu. Góð byrjun og góður endir á vinnudeginum.
Ég hef sem sé verið í vinnunni/lestinni meira og minna síðan á þriðjudaginn, fer líka að vinna í fyrramálið og á svo frí um helgina. Það hefur MJÖG margt drifið á daga mína í vinnunni/verknáminu á K 67 Kvinnokliniken Gynafdelningen/Gynakutten. Svo ekki sé meira sagt. Enda má það ekki. Þannig að ég geymi það með mér, verð ríkari af reynslunni og markmiðið: að þessi reynsla geri mig að betri hjúkrunarfræðingi í framtíðinni og ekki síst; að betri manneskju.
Ég má samt til með að segja ykkur eitt. Ég er með einstakan deildarkennara. Hún hefur einstaklega gaman af starfinu sínu og finnst ógurlega gaman að hafa nema. Og hún er mjög einbeitt. Til dæmis í morgun sagði: "Adda, i dag blir du expert i PVK" = í dag var semsé markmiðið að ég yrði expert í að setja upp nálar. Eins og þið vitið er það ekki endilega það besta eða þægilegasta sem maður veit að þurfa að láta setja upp hjá sér nál. Það getur reyndar verið ansi hreint vont, óþægilegt og það jafnvel líður yfir suma ef þeir svo mikið sem sjá nál, hvað þá blóð.
Ímyndið ykkur þá að vera sænskur sjúklingur í Svíþjóð að fara í alvarlega aðgerð og fá íslenskan hjúkrunarnema frá Íslandi sem á að setja upp hjá ykkur nál?! Inte så bra!
En það sem ég hef meðal annars lært í mínu námi er að gefast aldrei upp. Og hugsa alltaf; "ég get - ég skal - ég kann". Dáldið bilað kannski en virkar, trúið mér!
Og það gerði ég í dag. Ég hef sett upp nál nokkrum sinnum, en fyrir daginn í dag var ég enginn expert. En ég ákvað að vera einbeitt, kurteis og dáldið góð með mig án þess að vera með yfirlæti.
Niðurstaðan: Ég setti upp átta nálar í dag. Í sex sjúklinga og tvo hjúkrunarfræðinga sem vinna á deildinni (þeim langaði svo að prófa að fá nál...). Og það heppnaðist í fyrsta í ÖLL skiptin og gekk eins og í sögu. Eiginlega ótrúlega vel. Sjö-níu-þrettán.
Ég bara varð að monta mig aðeins.
Í kvöld fór ég svo í annan tímann í sænskunámskeiðinu. Lærði meðal annars að segja hjúkrunarfræðingur á sænsku: Sjuksköterska. Ef ykkur finnst það erfitt, prófið þá: "sju sjuksköterskastudent skåtter sju sjömän". En það er semsé heimaverkefnið mitt fyrir næsta tíma.
Ef dagarnir eru erfiðir og dimmir, þá er gott að líta upp og þakka fyrir lífið sem við eigum og öll tækifærin sem bíða okkar. Ef einar dyr lokast, þá opnast tvær nýjar.
Ykkar,
Adda.
Athugasemdir
Sæl elsku vinkona, langaði bara til að segja þér hvað ég sé stolt af þér. Það er líka svo gaman að lesa bloggið þitt og upplifa Svíþjóð í gegnum þig. Hlakka alltaf til að sjá hvort það sé komin ný færsla.
Kossar frá París
Rósa
Rósa Rut (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 22:35
Ótrúlega gaman að lesa Adda mín, villdi bara skilja eftir mig smá svo þú vissir að maður fylgdist með.
Fór í mat í gær og stúlkurnar sakna þín greinilega rosalega! En það verður frábært að koma heim aftur og knúsa rollingana :)
Hafðu það sem allra best, hlakka til að lesa næsta blogg!
-Steinunn Lilja
Steinunn Lilja (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 22:49
Ég er ekkert viss um að svíarnir hleypi þér heim:-) Þú ert alveg að gera gott mót þarna úti. Gaman að lesa færslurnar þínar, ég segi nú bara eins og fleiri maður upplifir þessa reynslu þína svo sterkt í gegnum skrifin þín
Kveðja frá Íslandi
Bína
Bína (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 08:46
Elsku Adda!
Þú verður bara að fá þér aðstoðarsjúkling, ég man það mjög vel þegar Auðbjörg systir var að æfa sig í að setja upp nálar, mesta furða að mínar æðar hafi náð að jafna sig. Þegar þú kemur heim og vantar að æfa þig þá veistu um eina sem er vant tilrauna dýr og nokkrar stungur til eða frá breyta engu hjá mér.
Gangi þér vel.
Knús frá okkur öllum
Klara Geirs
Klara Geirs (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 08:51
Þú ert náttúrulega bara snillingur
Annars má segja að það vanti eiginlega eins og einn hjúkrunarfræðing/nema hingað í Drápuhlíðina núna. Katrín Klara er á 3 degi flensu og Toggi var að koma úr endajaxlatöku (bæði hægra og vinstar megin) nú í hádeginu. Þau verða hins vegar að reiða sig á kennarann á heimilinu sem getur nú alla vega veitt þeim andlegan stuðning, ást og hlýju.
Allir hér biðja annars rosalega vel að heilsa
kv.Birna
Birna Klara Björnsdóttir (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 14:01
ég fékk eina tilraun á hvoru handarbaki hjá mínum deildarkennara á B2 í fyrrasumar - hún sat uppi með fjólubláa rós hvoru megin :) sakna þín
Elín Sigríður Grétarsdóttir, 27.3.2009 kl. 17:42
ohhh var ekki gaman að stinga??? ég er svo á rangri hillu, langar svo að stinga og stinga og krukka í sár. En ég er búin að sætta mig við að það verður bara í næsta lífi. Ofboðslega gaman að lesa frásagnir þínar.
Gangi þér áfram vel elsku Adda,
Gurrý
Gurrý (IP-tala skráð) 27.3.2009 kl. 20:32
HÆ ELSKU MAMMA!!!!!
Við erum rosalega ánægðar með gjafirnar sem við fengum og erum flestar í enhverju sem þú sendir .
Unnur og Sóley eru komnar með föt fyrir árshátíðina á miðvikudaginn (1.apríl) og verðum rosa fínar .
Birta er að fara að spila á tónleikum núna á eftir (kl. 4) og er - ótrulegt en satt - með eitthvað í hárinu !
Unnur og Sóley voru líka að sýna á auka Ballettsýningu áðan, gekk rosa vel.
ÁSTARKVEÐJUR ÞÍNAR DÆTUR!!
P.s. prufaðu að fara á Youtube.com og skrifa They're taking the hobbits to isengard og 100 funny falls. Það getur verið að rétta They... sé ekki ennþá inn á Youtube.
Dæturnar (IP-tala skráð) 28.3.2009 kl. 13:13
Gaman að skoða myndirnar Adda mín, það væsir ekki um þig. Þú ert örugglega búin að bræða alla upp úr skónum, sjúklinga jafnt sem starfsfólk:-) Ég labbaði einmitt þarna um gömlu þröngu göturnar fyrir nokkrum árum og það var engu líkt. Góðar kveðjur til þín - Bína
Bína (IP-tala skráð) 28.3.2009 kl. 18:49
Já, það er aldeilis! Sprautusérfræðingur í fjölskyldunni :-) Ég sé þetta alveg fyrir mér:
"Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir sprautusérfræðingur Laugalæk 32 sími..." Væri það ekki svolítið flott !
Kv. mín kæra úr vetrarríkinu, Sonja
sonja dröfn (IP-tala skráð) 28.3.2009 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.