Gamla Stan

Ég hef komist að því að ég er agalega góð í að finna mér alltaf eitthvað að gera, verandi svona alein í stórborg.

Sennilega hefur það eitthvað með það að gera, að ég er alltaf búin að plana fyrirfram hvað ég ætla að gera næsta dag. Frekar leiðinlegt, myndi einhver segja, en þetta fyrirkomulag virkar vel fyrir mig. Heiðar segir að ég sé fyrirsjáanleg manneskja ... á jákvæðan hátt!

Í gær var ég til dæmis búin að plana að skila af mér verkefni til prófessorsins míns á Íslandi. Og ég gerði það. Það tók að vísu alls tíu klukkutíma að klára það, en ég mér skilst að ég sé víst líka með netta fullkomnunaráráttu ásamt því að vera fyrirsjáanleg!

Í dag fór ég aftur á móti með henni Lindu, sem er deildarkennarinn minn á KI Huddinge, oní bæ. Þar sem ég ætlaði ALLS EKKI að vera of sein (við höfðum planað að hittast klukkan 11), var ég mætt á staðinn klukkan 10 mín í 11. Linda kom á mínútunni 11 og afsakaði sig þvílíkt fyrir að vera of sein! Þið munið að það er sko dónaskapur að vera óstundvís í Svíþjóð!

Við vorum búnar að ákveða að fara á söfn en þar sem það er mánudagur voru öll söfnin lokuð. Í staðinn gengum við um Gamla Stan, sem er eins og nafnið gefur til kynna, gamli bærinn í Stokkhólmi. Það var mjög gaman að ganga þarna um með henni og fá svona prívat guided tour um svæðið.

Maður finnur einhvern veginn gífurlega mikið fyrir fortíðinni þegar maður er í Gamla Stan. Það er nóg að loka til dæmis augunum þegar staðið er á steinlögðum götunum á Stortorget: þá er hægt að ímynda sér að árið sé 1664, hestarnir tölta um svæðið, "gobbledí, gobbledí, gobbledí, gobb", hávaðinn í fólkinu, það finnst matarlykt sem blandast skítalykt og lyktinni af sóti.

Þar eru líka fullt af verslunum sem selja minjagripi, antíkbúðir, postulínsbúðir, frímerkjabúðir, tóbaksbúðir, leikfangabúðir sem selja gömul leikföng og svo ein og ein sem selur nútímaflíkur, og manni finnst þær búðir einhvern veginn ekki passa inn í leikmyndina.

Svo er líka heill hellingur af veitingahúsum og kaffihúsum þarna, líka hótel og gistiheimili.

Linda sýndi mér þrengsta sundið í Gamla Stan; það er frekar langt, með tröppum og tvær manneskjur geta ekki gengið þar hlið við hlið. Einnig fórum við í Storkyrkan sem er kirkja sem var byggð í kringum 1400. Þið sem hafið áhuga á skandinavísku kóngafólki skuluð muna eftir þessari kirkju því þetta er einmitt kirkjan sem ungfrú Viktoría mun gifta sig í! Þetta er alveg einstaklega falleg kirkja, risastór og með gífurlega merkilega sögu.

Svo fékk ég líka guided tour um sænska hönnun og fórum við inn í allar búðir sem við rákumst á sem seldu einhvers konar hönnun eftir Svía: föt, skart, dótarí, eldhúsáhöld, úr og fleira. Nú þekki ég til dæmis "10-gruppen", sem eru 10 hönnuðir frá sjötta áratugnum sem hönnuðu vörur og mynstur dáldið svipað og hið finnska Marimekko.

Einnig fórum við á slóðir Mikael Blomkvist og Lisbeth Salander úr Man som hatar kvinnor í Slussen og Södermalm, sem var líka mjög gaman.

Ég keypti mér alveg agalega fallega skó sem ég er voða lukkuleg með í svona FairTrade búð í Gamla Stan á rúmlega þúsundkall íslenskar og áður en við Linda kvöddumst borðuðum við saman tælenska kjúklingasúpu á einhverjum af þessum fínu veitingastöðum í Gamla Stan.

Í dag var líka fyrsti tíminn á sænskunámskeiðinu. Og hann var alveg eins og fyrsti tíminn í dönsku fyrir...við skulum sjá...25 árum (er ég orðin svona gömul!?).  "Jag heter Adda och jag kommer fran Island", "Jag talar liten svenska". Þið skiljið.

En það var mjög gaman samt og mun bara hjálpa mér að gera mig skiljanlegri á sænsku.

En á morgun er nýr planaður dagur sem ég ætla mér að njóta og vona að Guð gefi ykkur öllum góðan dag á morgun sem og aðra daga.

Ykkar,

Adda

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl mín kæra!

 Það má nú segja það, ef þú værir ekki svona ofurskipulegð með enn meiri fullkomnunaráráttu værir þú líklega ekki þar sem þú ert í dag!

Svo njóttu bara!

Kv. Sonja

p.s. varstu búin að heyra að þinn ektamaður væri orðinn jafn frægur og Geiri á Golfinger...

sonja dröfn (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 22:07

2 identicon

numer uno, fatta-ru  kvitt kvitt

knus og kyss fran Gurry fran Island

Gurrý (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 22:08

3 identicon

Þú ert frábær:-)

Kveðja Bína

Bína (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 11:27

4 identicon

Sæl Adda.

Gaman að geta fylgst með þér, frábært að allt gengur vel.

góðar kveðjur úr sveitinni þinni

Didda

Didda (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 21:08

5 identicon

Hæ Adda mín

Ofboðslega gaman að lesa bloggið þitt og fá þannig að upplifa þetta ævintýri "með" þér.

kv.Birna

Birna Klara Björnsdóttir (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband