Karlbergsslott

Jæja, gott fólk!

Dagurinn í dag hófst kl.05:10 á mínu litla heimili, og ég var komin á lestarstöðina rétt fyrir sex. Þegar ég geng hálfsofandi í Laugar rétt fyrir sex í Reykjavík er öll borgin enn í fastasvefni. En það er svo sannarlega ekki þannig hér. Á lestarstöðinni iðaði allt af lífi og...það var búið að opna ExpressoHouse þannig að ég fékk minn latté kl.06:05! Hvað getur maður beðið um meira?

Mér líkar betur og betur við mig á spítalanum, og get orðið skilið næstum allt sem sagt er á sænsku. Þó ég nái kannski ekki alveg öllu frá orði til orðs, þá skil ég algjörlega innihaldið. Í dag hitti ég mjög skemmtilegan danskan lækni sem var mjög áhugasamur um hvernig lífið væri á Íslandi í dag. Hann var í Reykjavík sl. sumar á ráðstefnu, og bar íslenskum læknum góða sögu. Eftir nokkuð langt spjall við þennan ágæta lækni yfir morgunkaffinu um kaup Íslendinga á Magasin, Illum, bönkum, einkaflugvélum, íslensku krónunni sem er í lægstu lægðum, gífurlega háu fasteignaverði á Íslandi, veðráttunni á Íslandi, ástæðunni fyrir því að Íslendingar í útlöndum eru oftar en ekki alltaf á leiðinni aftur heim og hvort Íslendingar munu ná að komast út úr þessum hremmingum: var það tónlistarhúsið sem Daninn hafði mestar áhyggjur af! "Jo, men: musik! Det er musik som skal hjælpe Island at komme tilbage!" Það er kannski bara rétt hjá honum!? Menningin mun örugglega þjappa okkur þéttar saman, það er ég viss um.

Eftir að vinnudeginum lauk skellti ég mér út að hlaupa, og fór alveg einstaklega fallega leið niður að ströndinni hér í Solna. Endaði svo á að hlaupa framhjá Karlbergsslott sem er einn elsti herskóli heims. Alveg frábært að hlaupa hérna í þessu fallega umhverfi - það spretta í það minnsta engir kastalar eða herskólar eða strendur eða skógar upp þegar ég hleyp á brettinu í Laugum!

Ég var að ljúka við að lesa bókina Lesarann eftir Bernard Schlink, sem er mjög svo áhugaverð og ég mæli svo sannarlega með henni fyrir alla sem hafa áhuga á góðum bókmenntum (þessi setning var í boði Forlagsins). Á bls. 153 er setning sem ég ætla að leyfa ykkur að njóta með mér:

"Þar eð sannleikurinn í því sem við segjum er fólginn í því sem við gerum er vel hægt að komast af án þess að tala".

Þar til næst,

ykkar, Adda


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elín Sigríður Grétarsdóttir

þú ert að verða meira tæknitröllið Aðalbjörg

Elín Sigríður Grétarsdóttir, 18.3.2009 kl. 21:45

2 identicon

Sæl skvísa!

 Þetta er frábært að heyra og æðislegt að fá að fylgjast svona með þér. 

 kv. Sonja

sonja dröfn (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 21:45

3 identicon

Adda!!  jeminn, draumur þinn er veruleiki!!!! þú ert nú meiri lukkunarpanfíllinn eða er það pamfíllinn?? Hlakka til að fylgjast með ævintýrum þínum á sænskri grundu á sænskum spítala með sænska sæta (eða ekki) lækna í kringum þig  Njóttu lífsins mín kæra  

 Gurrý

Gurrý (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 22:31

4 identicon

Hæ Adda , frábært að heyra að allt gengur vel.  Hitti fjölskylduna þína á leikritinu áðan og það eru allir í góðum málum. Stelpurnar okkar stóðu sig mjög vel í kvöld.  Það verður gaman að fylgjast með fréttum af þér næstu vikur, go girl

Þín vinkona Bína

Bína (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 22:55

5 identicon

Vonandi hefur þú átt góðan dag, reyndar efast ég ekki eina mínútu um það

luv Gurrý

Gurrý (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 18:23

6 identicon

KÆRA, ELSKU, BESTA MAMMA!!!!!!!!!

Þetta eru við Unnur, Sóley, Birta og Arna að segja þér að okkur þykir mjög vænt um þig og okkur líður mun betur eftir að hafa talað við þig í símann. Sérstaklega að segja þér frá slúðrinu í Laugó . Unnur og Sóley þrífa húsið vikulega og    klósettið . Okkur hlakkar mikið til að hitta þig og fá GJAFIRNAR .

KOSSAR  OG KNÚS

UNNUR, SÓLEY, BIRTA OG ARNA!!!!!!!!!!

P.S. Söknum þín rooosa mikið og grátum okkur í svefn á hverju kvöldi .

Dæturnar (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband