Emmylundsvägen 3:227, 171 72 Solna, Sverige

Kæru vinir.

Fyrirsögnin á færslunni er heimilisfangið mitt hér í Stokkhólmi. Nú er ég búin að þrífa alla þessa 18 fm hátt og lágt, þannig að næsti skiptinemi getur farið að hreiðra hér um sig.

Það er margt sem fer í gegnum hugann eftir þessar fimm, næstum sex vikur. Mér finnst ógurlega langt síðan ég kom hingað fyrst, kvíðin, soldið sorgmædd, hálf-óttaslegin en líka full af tilhlökkun. Og ég er sátt. Mjög sátt og hamingjusöm.

Ég hef upplifað mjög margt: í verknáminu, í kúrsinum sem ég tók hérna, á öllum fleirihundruðogfimmtíu kílómetrunum sem ég hef gengið og hlaupið og á því að VERA. Ekki síst hef ég lært og komist að ótrúlega mörgu um sjálfa mig. Ég var algjörlega staðráðin í að nýta þennan tíma vel. Að læra allt sem ég gæti á Karolinska, nýta frítímann minn vel, skoða borgina, drekka í mig mannlífið og menninguna. Í rauninni gerði ég mér samt ekki grein fyrir hvert þessi tími myndi leiða mig, eða hvort þessi tími myndi leiða mig eitthvert. Ekki fyrr en núna. Auðvitað hefur svona reynsla gífurleg áhrif. Ég tala nú ekki um ef viðkomandi er í mínum sporum:

a) að eiga fimm börn

b) hafa ekki verið alein síðan sumarið 1992

c) vera í kröfuhörðu háskólanámi (eða réttara sagt: setja miklar kröfur á sjálfa sig í háskólanáminu sem hún er í) og vinna með skólanum.

Ég hef meðal annars komist að því að lífið er of stutt til að bíða eftir að það komi sá tími þar sem hægt er slaka á, njóta og vera. Tíminn er núna. En ef hann virðist ekki vera til, þá bý ég hann til. Ég hef líka komist að því að ég er agalega heppin og gæfusöm kona. Því það er mikil gæfa að geta látið draumana sína rætast. Ég á yndislega fjölskyldu sem hefur stappað í mig stálinu og bakkað mig endalaust upp. Mamma og Heiðar: án ykkar væri ég ekki hér.

Þó að ég skilji við Stokkhólm á morgun - í bili - þá tek ég sjálfa mig með til Íslands aftur, með alla upplifunina, reynsluna og perlurnar. Perlurnar eru allir góðu hlutirnir sem ég hef uppgötvað með því að fá þessa fjarlægð á lífið mitt á Íslandi, sem hafa sýnt mér hverju ég get breytt til hins betra. Það er nefnilega þannig að ég get ekki breytt öðrum en sjálfri mér.

Ég hljóp sirka 12 km í kvöld um strendurnar hérna í nágrenninu; framhjá Karlbergsslott og Kungsholm strand. Alveg dásamlegt. Ætli ég verði ekki orðin of góðu vön þegar ég fer að hlaupa á Íslandi! Nei, ég hugsa nú ekki. Það er til dæmis agalega hressandi að hlaupa eftir Sæbrautinni.

Heiðar minn fór til London í dag og ég er ekki frá því að hann hafi orðið jafnhugfanginn af þessari borg og ég. Og ég hef mjög sterka tilfinningu fyrir því að ég/við munum koma hingað fljótlega aftur. 

Elskurnar mínar. Farið vel með ykkur og ykkar. Næst þegar ég læt eitthvað frá mér hér, verð ég á Íslandi og ég hlakka til.

Ykkar,

Adda

   

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dásamlegt - við heyrumst og sjáumst síðar :-)

Kv. Sonja

sonja dröfn (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 22:04

2 identicon

Góða ferð heim og við sjáumst fljótlega

kv.Birna

Birna Klara Björnsdóttir (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 22:26

3 Smámynd: Elín Sigríður Grétarsdóttir

Elín Sigríður Grétarsdóttir, 20.4.2009 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband